139. löggjafarþing — 145. fundur,  8. júní 2011.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:19]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti, ágætu landsmenn. Í kjölfar síðustu kosninga höfðu Samfylking og Vinstri grænir uppi fögur fyrirheit um að öllu skyldi breyta á Íslandi. Auka átti lýðræði og þátttöku borgaranna í ákvörðunum er varða hag þeirra allra. Talað var um „verkstjórann mikla“ sem sprottinn væri úr jarðvegi sanngirni, gagnsæis, jafnréttis, heiðarleika og réttsýni. Hann væri bestur allra til að leiða þjóðina. Umbylta átti Íslandi öllu í átt til norræns velferðarþjóðfélags. Nú yrðu velferðarbrýr reistar yfir hverja torfæru og sérhagsmunir dregnir niður. Nú yrðu hagsmunir hins almenna borgara loksins í forgrunni.

Rúm tvö ár eru liðin frá því að þessi fögru fyrirheit voru gefin. Frá miðju ári 2008 hafa 28 þús. störf tapast á íslenskum vinnumarkaði. Um 14 þús. manns ganga atvinnulaus nánast án framfærslu, önnur 14 þús. hafa flutt af landi brott í leit að atvinnu. Skuldavandamál fólks og fyrirtækja eru að mestu óleyst og lítið bólar á hagvextinum. Erlendir fjárfestar eru fældir frá með tali um þjóðnýtingu og á meðan renna vötnin til sjávar, óbeisluð og engum til gagns.

Framlag ríkisstjórnarinnar til atvinnuuppbyggingar er helst sólpallaverkefnið Allir vinna. Það er í sjálfu sér ágætt að Íslendingar dytti að sólpöllum sínum og byggi jafnvel nýja en það er tæpast neitt sem þjóðin getur byggt á til framtíðar. Ungt vel menntað fólk horfir stöðugt meira til útlanda eftir tækifærum, tækifærum sem ríkisstjórninni hefur mistekist að skapa á Íslandi. Ungt fólk vill byggja eitthvað stærra en sólpalla.

Við almenningi á Íslandi blasir efnahagslíf í öndunarvél, þverrandi kaupmáttur og versnandi lífskjör. Í því andrúmslofti ákveður ríkisstjórnin að ganga enn lengra og kippa stoðunum undan sjávarútveginum og ógna þannig starfsöryggi um 30 þús. einstaklinga sem starfa beint og óbeint við greinina.

Góðir landsmenn. Hugmyndin um að hægt sé að skapa fleiri störf með því að umbylta fiskveiðistjórninni er á miklum misskilningi byggð. Ef vilji stjórnarflokkanna nær fram að ganga mun það festa í sessi óhagkvæmni í útgerð. Það mun færa störf frá einum sjómanni til annars, frá einu byggðarlagi til þess næsta. Það er misskilningur að fiskum í sjónum fjölgi ef horfið er til atvinnuhátta fyrri tíma. Það er ekki mikil stjórnviska að etja fólki saman þegar þjóðarhagsmunir kalla á að fólk gangi í takt. Nú hefur hið stærra frumvarp ríkisstjórnarinnar verið dregið til baka og hið minna ætti að fylgja í kjölfarið. Eftir ætti að óma sá lærdómur aldanna að kapp sé ávallt best með forsjá.

Þá virðist ríkisstjórnin algjörlega hafa gefist upp fyrir því verkefni að afnema gjaldeyrishöftin sem skaðað hafa fólk og fyrirtæki stórkostlega, höft sem átti að afnema vorið 2009. Ríkisstjórnin vill fara austur-þýsku leiðina og loka þjóðina með lögum endanlega á bak við múra hafta. Höftin lengja kreppuna og gera það að verkum að íslenska hagkerfið og um leið hagur fólks og fyrirtækja mun halda áfram að dragast aftur úr nágrannalöndunum. Ísland er nú í 31. sæti af 50 löndum hvað varðar samkeppnishæfni landa. Það fælir erlenda fjárfestingu frá. Digurbarkalegar yfirlýsingar ráðherra um ónýta krónu hafa ekki bætt úr skák. Gjaldeyrishöftin halda jafnframt niðri kaupmætti og lífskjörum almennings með því að leggja grunn að óðaverðbólgu á Íslandi næstu árin. Vandamálin hlaðast upp handan stíflunnar.

Þótt gjaldeyrishöftin og fiskveiðistjórnin séu alvarleg mál eru þau ekki erfiðasta glíman. „Verkstjóranum mikla“ hefur algjörlega mistekist að veita þjóðinni þá leiðsögn sem hún þarf á þessum óvissutímum. Þjóðin er óörugg um hag sinn og það leiðir til þess að hver höndin er upp á móti annarri. Þjóðin þarfnast framtíðarsýnar. Þessari ríkisstjórn færi best að játa sig sigraða og fela þjóðinni hið fyrsta að velja sér nýja pólitíska leiðtoga í kosningum. — Góðar stundir.