139. löggjafarþing — 145. fundur,  8. júní 2011.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:24]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti, ágæta þjóð. Ég man eftir að hafa setið við eldhúsborðið heima í Hafnarfirðinum og hlustað á eldhúsdagsumræður með pabba mínum heitnum. Hann taldi mér ákveðið trú um það með stríðnisglampa í augum að við yrðum að sitja við eldhúsborðið og hlusta, þetta væru þannig umræður. Mér var kennt ýmislegt annað við þetta eldhúsborð, t.d. að ég ætti að vera þakklát fyrir að vera þokkalega vel af guði gerð. Það þakklæti ætti að birtast í virðingu fyrir lífinu og vilja til að berjast fyrir réttlæti öllum til handa um leið og ég átti að gera mér grein fyrir því að ég væri fædd með tvö eyru og einn munn vegna þess að ég ætti að hlusta helmingi meira en ég talaði, en það væri samt ágætt að tala svolítið.

Með þetta veganesti er eðlilegt að skipta sér af því hvernig samfélagið í kringum mann skipast og það gera menn gjarnan með því að blanda sér í pólitík. Hluti af því er baráttan fyrir sem jöfnustum tækifærum fólki til lífsgæða í samskipuðu samfélagið. Það er nefnilega þannig að fólk hefur misgóð tækifæri til að njóta gæða lífsins. Þar getur ýmislegt komið til eins og heilsa, kyn, þjóðerni, búseta og fötlun.

Mig langar til að gera hér að sérstöku umtalsefni þær miklu breytingar sem þingið hefur unnið að í málefnum fatlaðs fólks. Þar ber auðvitað fyrst að nefna þá miklu breytingu sem gerð var um áramótin þegar málaflokkurinn í heild sinni var fluttur frá ríki til sveitarfélaga eftir vandaða undirbúningsvinnu í verkefnastjórn við yfirfærsluna. Við í félags- og tryggingamálanefnd hefðum þó gjarnan viljað fá talsvert lengri tíma til að vinna að lagabreytingum sem nauðsynlegar voru vegna yfirfærslunnar, en samstiga og samhent unnum við að mikilvægum breytingum í góðu samstarfi við fatlað fólk, talsmenn þess og fræðimenn á sviði fötlunarfræða. Við þá vinnu kom vel í ljós hversu illa réttindagæsla þessa hóps stóð og var því lagt til í breytingartillögum nefndarinnar að skammur frestur yrði gefinn til að koma með nýtt frumvarp um bætta réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

Það vakti sérstaka athygli mína að þegar þessi lög voru samþykkt rétt fyrir jólin sá enginn fjölmiðill ástæðu til að vera viðstaddur eða greina frá því að verið væri að flytja þennan mikilvæga málaflokk milli stjórnsýslustiga með tilheyrandi tæplega 11 milljarða tilfærslu á fjármagni, hvað þá að greina frá þeirri góðu sátt sem var um málið í nefndinni.

Áhugasvið fjölmiðla væri umfjöllun í aðra og mun lengri ræðu, en til að hún næði eyrunum löngu þyrfti líklega að vera í henni dálítið af orðhengilshætti og góður skammtur af skítkasti í bland við órökstuddar, stóryrtar fullyrðingar um ákveðnar persónur. En við, hinn samstillti hópur í félags- og tryggingamálanefnd, höfum nú lokið umfjöllun okkar um frumvarp um réttindagæslu fatlaðs fólks og á þá einungis eftir að greiða atkvæði um það til að það verði að lögum. Þar er réttindagæslunni skipt í þrjú svið, réttindavakt í velferðarráðuneytinu, net réttindagæslufólks vítt og breitt um landið og síðan geta lögráða fatlaðir einstaklingar valið sér persónulegan talsmann. Stórt skref hefur verið stigið í réttindabaráttunni en við erum ekki komin á leiðarenda. Við þurfum að skoða hvar við viljum að mannréttindamálum sé almennt komið fyrir í Stjórnarráðinu og við þurfum að leggja á það mikla áherslu að lögleiða samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem allra fyrst. Við erum á leiðinni að markinu og munum stefna þangað öruggum skrefum.

Annað afar merkilegt skref var stigið í réttindabaráttu á vordögum þegar viðurkennt var með lögum þar um að íslenskt táknmál væri fyrsta mál heyrnarskertra, heyrnarlausra og annarra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar. Þar gladdist hin samstarfsfúsa menntamálanefnd með notendum táknmálsins á tilfinningaþrunginni stundu.

Núna á síðustu dögum hefur þingið samþykkt að atvinnuleitendur fengju sömu kjarabætur og launþegar í júní og desember og að lokað yrði á víxlverkun lífeyris og bóta hjá öryrkjum. Rannsóknir sýna að breytingar á skattkerfinu hafa haft þau jöfnunaráhrif sem þeim var ætlað að hafa svo tekist hefur að lækka skattbyrðina á þá sem lægstar hafa tekjurnar. Þannig er ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur að takast að ná fram jöfnuði og réttarbótum um leið og hún er að byggja upp efnahagslífið og koma íslensku samfélagi á réttan kjöl eftir stærsta efnahagshrun Íslandssögunnar. Sókn er fram undan í menntun ungs fólks í atvinnuleit, áhersla er lögð á samþættingu menntastefnu og atvinnustefnu, hagvöxtur er kominn yfir 2%, skuldatryggingarálagið niður í 200 punkta, þorskkvótinn verður aukinn um 18% — er þetta ekki bara ágætisupptalning því til sönnunar að þjóðin er sannarlega að rétta úr kútnum efnahagslega og samfélagslega?

En við getum svo sannarlega haldið áfram á þessari góðu vegferð. Við höfum mörg góð verk að vinna. Mig langar þar að vísa sérstaklega til skýrslu þingmannanefndarinnar um Alþingi. Þar er talað um undirbúning löggjafar og hvað þar megi betur fara. Mér hefur fundist dálítið sérstakt að upplifa þessi tvö ár sem ég hef setið á þingi hversu lítið virðist vera leitað til fræðasamfélagsins þegar unnið er að lagagerð um hin ýmsu málefni. Þekkingin sem þar býr ásamt víðtækri reynslu atvinnulífs og hagsmunaaðila hlýtur að vera dýrmæt þegar við erum að móta þá stefnu og þann ramma sem í löggjöf býr. Með þannig samþættingu við heilbrigða skynsemi þingmanna og reynslu ættum við að geta sinnt því hlutverk að taka fyrst og fremst mið af almannahagsmunum í lagasetningu sem eru hið eiginlega hlutverk okkar.

Alþingi á að vera vettvangur lýðræðislegra og málefnalegra skoðanaskipta og okkur ber að sýna hugrekki, heiðarleika og festu svo við getum endurheimt traust þjóðarinnar. Það er enn margt fólk úti í samfélaginu sem er biturt og reitt vegna þess hvernig breytingarnar á samfélaginu hafa farið með lífsgæði þess. Við þurfum að horfast í augu við það, ávarpa þetta fólk af virðingu og skilningi og leita lausna til að ná aftur víðtækri sátt í samfélaginu svo bjartsýnin og vonin sem á að móta líf okkar á uppbyggingartímanum sem fram undan er finni sinn farveg. — Góðar stundir.