139. löggjafarþing — 145. fundur,  8. júní 2011.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:39]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Á þessu kalda vori erum við óþyrmilega minnt á náttúruöflin sem móta landið okkar og okkur sjálf. Gosið í Grímsvötnum í síðasta mánuði og gosið í Eyjafjallajökli í fyrravor vöktu upp samkennd og samstöðu hjá fámennri þjóð sem er svo heppin að þekkja söguna og geta skilið hvað er í húfi fyrir fólk og fénað fyrir austan. Fjölskyldur sem horfa upp á heimili sitt hyljast svörtu skýi og þungri ösku eiga óskipta samúð okkar og við fyllumst aðdáun á því hvernig menn hjálpast að við hreinsa til, afmá ummerki eldsins og gera klárt fyrir næsta dag og næsta slag. Náttúruöflin hafa þannig kennt okkur að samstaða og samhjálp, þolgæði og bjartsýni sigra mótlæti, sópa burtu sortanum og opna leið fyrir birtuna sem kveikir líf í grasrótinni svo allt geti grænkað á ný.

Þannig bregðumst við við náttúruhamförum en þegar hamfarirnar eru af mannavöldum og viðbúnaðurinn enginn eins og hrunið sem skall á okkur haustið 2008 verða viðbrögðin önnur, eðlilega. Menn misstu vinnu og töpuðu eignum, tækifærum til náms og þroska, sumir jafnvel lönguninni til að taka þátt í að byggja upp nýtt samfélag á rústum hins gamla. Reiði og vonbrigði tóku völdin, eðlilega segi ég aftur, fyrst efnahagskerfið riðaði til falls. Seðlabankinn fór á hausinn, bankarnir hrundu, skuldirnar stökkbreyttust. Tekjur ríkissjóðs féllu á einu bretti, niðurskurður, launalækkun og skattahækkanir blöstu við ofan í kaupið.

Frú forseti. Undir orðræðunni hér í kvöld hefur hugtakið gullfiskaminni leitað á hugann. Mér finnst menn ansi fljótir að gleyma. Eða varð hér kannski ekkert hrun? Er það allt tilbúningur og misskilningur, eitthvað sem Jóhanna og Steingrímur hafa búið til eða almenningur í landinu? Og um hvað var aftur þessi svokallaða rannsóknarskýrsla sem var að þvælast eitthvað fyrir Sjálfstæðisflokknum fyrir örfáum mánuðum?

Hverfum aftur til 2007. Þegar fyrstu fjárlög eftir kosningar litu dagsins ljós boðuðu þau betri tíð með blóm í haga. Nægir peningar í ríkissjóði, 30 milljarða afgangur. Það var stefnt á enn frekari lækkun skatta á hátekjufólk og fyrirtæki á árunum 2008 og 2009 en stórhækkuð notendagjöld fyrir grunnþjónustu. Nýr spítalaskattur var fundinn upp, að ógleymdum áformum um stórfellda einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu og menntakerfi.

Haustið 2007 bárust líka fréttir af nýju Norðurlandameti, tveir Íslendingar voru hæstlaunuðu stjórnendurnir á Norðurlöndunum gjörvöllum og hafði hvor um sig 800 millj. kr. í árslaun. Aðeins ári síðar var fjárveitingin til Landspítalans ekki skorin niður um 800 milljónir heldur 1.800 milljónir. 6. október 2008 hrundi glansmyndin, góðærið sem hafði byggst á blekkingum og bólu. Gervilífskjörin hurfu.

Aðkoma fyrir nýja ríkisstjórn 2009 var því ekki glæsileg en menn vissu að hverju þeir gengu og voru reiðubúnir að takast á við verkefnið. Það þurfti einfaldlega að byrja á tiltekt eftir veisluna miklu, kertin voru brunnin niður, glösin um koll, stofan rústir einar. Og mörgum finnst ganga hægt en ég verð að segja, frú forseti, að tvö og hálft ár eru ekki svo langur tími til að byggja upp það sem tók 18 ár að rífa niður, sér í lagi þegar hrunverjar hjálpa ekki mikið til en vinna frekar á móti öllu, stóru sem smáu. Þeir hafa valið að berjast á móti endurreisninni vegna þess að hún fer ekki fram á þeirra forsendum, hún tekur mið af almannahagsmunum en ekki sérhagsmunum.

Góðir landsmenn. Því verður ekki lengur í móti mælt að þrátt fyrir alkul frjálshyggjunnar haustið 2008 er aftur farið að vora í íslensku efnahagslífi og lífsgæðum almennings. Við skulum ekki afneita staðreyndum og við skulum ekki láta blekkjast til þess að rugla saman orsökum og afleiðingu, orsökum hrunsins og afleiðingum hrunsins sem við erum enn að glíma við. Það skiptir máli hverjir stjórna í þessu landi, það skiptir máli hvernig samfélag við byggjum á rústum hins fallna.

Frú forseti. Við stöndum svo sannarlega á tímamótum eins og oft hefur verið bent á í kvöld. Í hálfleik bera liðsmenn venjulega saman bækur sínar og í kvöld, á eldhúsdegi þegar kjörtímabilið er hálfnað, hefur þjóðin fengið að fylgjast með því hér hvernig menn meta frammistöðu sinna manna í fyrri hálfleik og hverju þurfi að breyta í þeim síðari til að ná settu marki. Úr vörn í sókn, heyri ég stjórnarliða segja, og ég tek undir það.

En hvað segir stjórnarandstaðan? Út af með andstæðinginn, það er það sem lagt er til. (Gripið fram í.) Við skulum vera raunsæ en við skulum líka vera sanngjörn. Við höfum margt til að gleðjast yfir en við höfum líka margt til að berjast enn þá fyrir. Og nú þurfum við, vinstri menn innan þings og utan, að snúa bökum saman og nýta síðari hluta þessa kjörtímabils til þess að byggja upp, til þess að treysta velferð og jöfnuð á grunni sjálfbærs atvinnulífs. — Góðar stundir.