139. löggjafarþing — 145. fundur,  8. júní 2011.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:45]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Kæru landsmenn. Undanfarna daga hef ég velt fyrir mér hvort við höfum lært eitthvað af hruninu. Ég horfi upp á þá sem bera ábyrgð á þriðja stærsta fjármálahruni sögunnar þvo hendur sínar af allri ábyrgð og bera við einelti og ofsóknum. Þingið sjálft er vanhæft til að taka á þeim veruleika sem blasti við í skýrslu rannsóknarnefndar því að það er ekki nóg að segjast ætla að gera eitthvað, heldur þurfa verk að fylgja orðum. Þjóðin virðist enn á ný ginnkeypt fyrir loforðum um velsæld þó að fjölmargar fjölskyldur hafi glatað öllu sínu vegna ónýtrar stjórnsýslu og vanhæfni ráðamanna fyrr og nú.

Á eftir reiðinni kemur oft afneitun. Mér finnst bæði þing og þjóð vera í þessu afneitunarferli sem og fyrrverandi ráðamenn og fjármálajöfrar. En hvað er til ráða? Ég bar ákveðna von í brjósti þegar hér hrundi allt því að í hamförum eru oft tækifæri til endurnýjunar og gagngerrar uppstokkunar. Mér finnst við ekki mega glata þessu tækifæri til að gera samfélagið okkar betra, breyta um ónýtt kerfi og stjórnsýslu og taka ákvarðanir af hugrekki þjóðinni til heilla.

Mikil átök eru fram undan vegna fiskveiðistjórnarkerfisbreytinga. Mér finnst því eðlilegast að þjóðin fái að kjósa um þær leiðir sem ræddar hafa verið á Alþingi. Mér finnst jafnframt eðlilegt að þjóðin fái að kjósa um stjórnarskrárbreytingar áður en þær fara til meðferðar hér inni. En gleymum ekki að það að breyta stjórnarskrá út frá gildum þjóðar þýðir oft fórnir og umbyltingar kerfis sem ekki lengur þjónar hagsmunum almennings heldur stendur vörð um sig eins og hér er raunin.

Kæru landsmenn. Ég spyr mig oft að því af hverju gott fólk gangi inn í ráðuneyti og umbreytist í eitthvað sem kalla má umskiptinga. Getur verið að þeir sem veita því ráðgjöf hræði það til hlýðni með skelfilegum sögum um málsóknir sem gætu kollvarpað samfélaginu og jafnvel strítt gegn almannahag? Ég veit það ekki, svei mér þá. Ég veit þó að öll stóru orðin sem stjórnarandstaðan svokallaða hverju sinni blæs út í þessum stól virðast koðna niður og verða að ofurlitlu tísti þegar fólk kemst svo til valda.

Þó að þessi ríkisstjórn hafi gert mörg mistök er ljóst að margt gott hefur verið gert og það væri ómaklegt að virða það ekki. Hin stóri sigurvegari umbreytinga er vilji og staðfesta almennings til að fá að taka þátt í ákvarðanatöku er varðar hagsmuni þjóðarinnar. Ber þar hæst þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave og stjórnlagaþing. Það er mikilvægt að fólk átti sig á því að við sem erum hér inni og erum hinir kjörnu fulltrúar til þess að gæta hagsmuna þeirra gerum það best með góðu og þéttu aðhaldi. Því vil ég þakka öllum sem hafa skrifað okkur alþingismönnum bréf, öllum sem hafa staðið fyrir utan þingið og hvatt okkur til að hlusta á sig, öllum sem hafa lagt eitthvað af mörkum til að móta og þróa samfélagið okkar. Ég þakka öllum sem hafa látið sig aðra varða og hvet fólk til að halda áfram að sýna vilja sinn í orði og verki.

Þá finnst mér mikilvægt að benda á þá staðreynd að þingið er endurspeglun þjóðar og að allir þeir sem kusu eiga fullan rétt á að hvetja okkur til góðra og réttlátra verka. Einstaklingar geta breytt mjög miklu ef þeir beita sér í þágu samfélagsins. Ef maður gerir ekki neitt og ætlast til þess að aðrir beri ábyrgð á aðgerðaleysinu er ljóst að maður fær aldrei að upplifa draumasamfélagið sitt.

Enn hefur hrunið ekki verið gert upp. Enn er samþætting fjármálaheims og þingheims of mikil. Enn loðir of mikið af spillingu og sérhagsmunum við þingið og enn vantar mjög mikið upp á gagnsæi og ábyrgð. Enn vantar framtíðarsýn og enn vantar auðmýkt og enn vantar skilning á að það eigi ekki og megi ekki moka yfir fortíðina og láta sem ekkert hafi átt sér stað sem kallar á réttlæti.

Forseti. Fjölmiðlar hafa enn og aftur brugðist og eru orðnir eins og innantómar skeljar sem stunda kranafréttamennsku án allrar gagnrýninnar hugsunar. Það hlýtur að vera hlutverk fjölmiðla að taka flókna hluti og setja þá í þannig búning að almenningur skilji það sem er í gangi í samfélaginu. Mér hafa fundist samtímafréttir skauta á yfirborðinu og vanta alla dýpt svo fólk geti áttað sig á því hvað gerðist og hvað verður að eiga sér stað svo við getum byggt á traustum grunni úr einhverju öðru en fúnum efnivið þjóðernishyggju og ótta við hið óþekkta. Ég skora því á fjölmiðil allra landsmanna að greiða leið rannsóknarblaðamennsku innan búðar hjá sér og gera því starfsfólki sem kann að kryfja flókna hluti kleift að vinna vinnuna sína og koma niðurstöðunni áleiðis til okkar hinna.

Kæru landsmenn. Ríkisstjórnin hefur oft verið reikul í spori og sýnt af sér fádæma vanhæfni er varðar grunnstoðir samfélags okkar. Að mörgu leyti er það skiljanlegt en mér er algjörlega fyrirmunað að skilja hvernig hæstv. fjármálaráðherra tókst að láta kúga sig til þess að taka stöðu með vogunarsjóðum í stað þess að slá skjaldborg um heimilin í landinu eins og hann lofaði og er hluti af stefnu þessarar ríkisstjórnar. Mig langar jafnframt að minna ríkisstjórnina á Magma Energy og þann stóra undirskriftalista sem henni var færður og hefur týnst undir stól einhvers staðar.

Þá langar mig að minna á að það er kraftaverk að hún fái að starfa eftir að hafa margsinnis reynt að kúga ofan í þjóðina Icesave með ógeðfelldum óttaáróðri og hamfaraspám sem hafa ekki gengið eftir. Þjóðin hefur ekki hafnað ykkur enn þá vegna þess að það er ekkert skárra í boði. Það ætti að hvetja hæstv. ríkisstjórn til að fara nú í það af fyllstu alvöru að berjast með kjafti og klóm fyrir heimilin í landinu og það sem eftir er af velferðarkerfinu okkar. Næsta skref ríkisstjórnarinnar hlýtur að vera að afnema verðtrygginguna af húsnæðislánum með sama pennastrikinu og notað var til að afnema hana af launum.