139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[10:32]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Forseti. Ég flyt nefndarálit samgöngunefndar um breytingar á lögum nr. 97/2010, um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

Með frumvarpinu er ætlunin að bæta skýrri eignarnámsheimild við lög um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir þannig að eytt sé öllum vafa um að félög samkvæmt 1. og 2. gr. laganna geti staðið að lagningu Suðurlandsvegar frá Vesturlandsvegi austur fyrir Ölfusárbrú að nýjum gatnamótum á núverandi Suðurlandsvegi og lagningu Vesturlandsvegar frá Kollafirði að Hvalfjarðargöngum, lokið við Reykjanesbraut frá Kaldárselsvegi að Víknavegi, ásamt nauðsynlegum undirbúningi, og staðið að gerð jarðganga undir Vaðlaheiði ásamt vegalagningu að þeim auk annars nauðsynlegs undirbúnings.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að óvissa ríki um hvort eignarnámsheimild vegalaga sé fullnægjandi grundvöllur til eignarnáms Vegagerðarinnar þegar slíkt eignarnám er gert í þágu framkvæmda á vegum hlutafélaga sem Vegagerðin hefur stofnað eða tekið þátt í að stofna.

Á fundum nefndarinnar var farið yfir málið. Þar var meðal annars bent á að veiting heimilda til eignarnáms vegna vegagerðar byggist á því að samfélagslegir hagsmunir krefjist þess að landeigendur verði skyldaðir til að láta af hendi land til þess að orðið geti af gerð vega, eins og kveðið er á um í 37. gr. vegalaga. Þeir hagsmunir geta verið staðbundnir að því gefnu að þeir teljist engu að síður almennir. Var einnig vísað til þess að áskilið væri samkvæmt eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar að fullar bætur yrðu greiddar til þeirra sem fyrir eignaskerðingu verða vegna eignarnáms. Þá kom fram að eignarnámsheimild frumvarpsins væri hvað framsetningu varðar í efnislegu samræmi við margar eignarnámsheimildir gildandi laga.

Nefndin bendir á að þær framkvæmdir sem vísað er til í 1. mgr. 1. gr. laganna eru allt framkvæmdir sem hafa um nokkurn tíma verið til umræðu í þjóðfélaginu. Er það mat nefndarinnar að slíkar framkvæmdir hafi í för með sér aukið umferðaröryggi, aukna hagkvæmni og skilvirkni samgangna, styttri ferðatíma, lægri flutningskostnað og jöfnun aðstöðu íbúa byggðarlaga. Þá munu slíkar framkvæmdir efla byggðir landsins og tengja saman aðskilin atvinnu- og þjónustusvæði.

Nefndin telur rétt að tekinn sé af allur vafi um að eignarnám vegna framkvæmda samkvæmt lögum þessum um stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir geti átt sér stað til samræmis við ákvæði vegalaga og leggur því til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir, Mörður Árnason, Árni Johnsen og Guðmundur Steingrímsson voru fjarverandi við afgreiðslu þessa máls, en auk þess sem hér talar skrifuðu undir þetta nefndarálit hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Ásbjörn Óttarsson.

Eins og kom fram í máli mínu varð málið fullrætt í samgöngunefnd og samstaða var um að afgreiða það út úr nefndinni með þeim hætti sem kemur fram í nefndarálitinu. Ég sé því ekki ástæðu til að vísa því aftur til nefndar.