139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[10:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Vali Gíslasyni fyrir þessa framsögu. Af því að ég sit ekki í samgöngunefnd langar mig að spyrja hvort hv. þingmaður meti það sem svo að sú þróun sem verður varðandi allar meiri háttar samgönguframkvæmdir — ég er svolítið að fara út á hálan ís, ég er hrædd um að ef ég fer að ræða þetta mál og Vaðlaheiðargöng verði ég strax stimpluð þannig að ég sé á móti þeirri framkvæmd. Ég vil taka fram að svo er alls ekki. Mér þykir mikilvægt að fara af stað með framkvæmdastigið í landinu og þar höfum við allt of mikið dregið lappirnar.

Ég spyr hins vegar hv. þingmann hvort hann meti það sem svo að við séum að varða leið til nýs fyrirkomulags. Er það þannig að Vegagerðin fer af stað og stofnar hlutafélag um allar helstu vegaframkvæmdir, kannski til þess að sneiða fram hjá þunglamalegum reglum annars staðar? Hvernig sér hv. þingmaður þróunina hvað þetta varðar? Er þetta þá það fyrirkomulag sem við munum sjá í auknum mæli til að ýta af stað öðrum framkvæmdum?

Í öðru lagi langar mig að forvitnast um það hvort nefndin hafi sent þetta mál til umfjöllunar og leitað eftir umsögnum hjá öðrum aðilum en eingöngu Vegagerðinni. Hvaða álit voru það þá? Ekki síst er ég með í huga hvort það sé rétt leið að koma inn svona eignarnámsheimild með tilliti til eignarréttar og réttar landeigenda. Fjölluðu aðrir aðilar um þetta en Vegagerðin og hvaða einstaklingar mættu þá á fund nefndarinnar út af þessu máli?