139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[10:41]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég útskýrði áðan með vísan í nefndarálit út af hverju væri verið að bæta þessari heimild inn í núgildandi lög. Það er til þess að taka af allan vafa um heimild til eignarnáms, rétt eins og var með Hvalfjarðargöng og fleiri framkvæmdir, ekki eingöngu í vegagerð heldur varðandi skipulagsmál og fleira slíkt. Þegar Vegagerðin er í samstarfi við aðra aðila er talið rétt að taka af allan vafa um að eignarnámsheimild sé fyrir hendi. Við í samgöngunefnd töldum rétt að taka af þann vafa og þess vegna er lagt til að þetta verði gert svona.

Það voru auðvitað skiptar skoðanir innan nefndarinnar eins og kom fram í nefndarálitinu. Umræðan í nefndinni endurspeglast í því sem kemur fram í nefndaráliti. Ég læt einstöku nefndarmönnum eftir að útskýra sín sjónarmið. Ég útskýrði hér niðurstöðu þeirra samgöngunefndarmanna sem skrifa undir nefndarálitið en biðst undan því að túlka í þessum ræðustóli skoðanir annarra á þessu máli. Einhverjir þeirra eru í þessum þingsal og geta eflaust gert grein fyrir máli sínu á eftir ef þeir telja ástæðu til þess.