139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[10:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi varðandi einhug samgöngunefndar til þessa máls þá eru það fimm af níu sem skrifa undir nefndarálitið, aðrir voru fjarverandi og einn af þessum fimm skrifaði undir með fyrirvara. Þvílíkur er einhugurinn. (Gripið fram í.) Líka þetta, hann sagði þetta væri afgreitt úr nefndinni. Jæja, ókei, ég ætla ekki að vera að ræða við þingmanninn hér, hann getur bara komið í ræðu. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður getur komið í ræðu og sagt það.

Veggjöld eru eins konar skattur. Hingað til hafa menn á Íslandi getað keyrt ókeypis um vegi nema í gegnum göngin undir Hvalfjörð. (Gripið fram í: Keflavíkurveginn í gamla daga …) Keflavíkurvegurinn í gamla daga, það var líka skattur. Þannig að það þarf að setja lög um veggjöld til þess að það sé heimilt og það er skattur sem ríkið leggur á til að fjármagna þessar framkvæmdir.

Það hefur hingað til verið hlutverk ríkisins að sjá um vegaframkvæmdir um landið. Það má vel vera að það sé heimsmynd hv. þingmanns að breyta því eins og öðru, það mætti til dæmis einkavæða menntakerfið, heilbrigðiskerfið o.s.frv. til að það sjáist ekki í reikningum ríkisins að farið sé í framkvæmdir sem peningar voru ekki til fyrir eins og hv. þingmaður sagði. Það er nefnilega ríkisábyrgð á þessu öllu saman meira og minna. Ef einhver fjármálaráðherra vill í framtíðinni hætta við veggjöldin þá verður hann engu að síður að borga, það er nefnilega skuldbinding í þessu. Ég minni á það að Harpan, hin fína, er hvergi á fjárlögum, hún bara datt af himnum ofan. Það borgaði þetta enginn.