139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[10:54]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hér eru allir pollrólegir. En ég hef engu að síður óskað eftir nærveru einhverra af hálfu Samfylkingarinnar hér í þingsal, og þetta snertir að sjálfsögðu fundarstjórn forseta, til að fara yfir þær ólíku skoðanir sem greinilega hafa verið í nefndinni og eru á milli manna út af þessu máli. Hvað mína skoðun varðar mun ég að sjálfsögðu gera grein fyrir henni í ræðu og það er meira en hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn hafa gert í þeim stóru málum sem við höfum verið með til umfjöllunar. Við fáum bara að heyra um það í fjölmiðlum hverjar eru skoðanir hæstv. forsætisráðherra á útgerðarmönnum og sjávarútveginum öllum. En forsætisráðherra getur ekki komið hingað í þingsal og rætt þau mál hér.

Ég mun fara yfir skoðanir mínar á þessu máli og jafnvel á ýmsum öðrum málum sem tengjast (Forseti hringir.) samgöngumálum og stórum framkvæmdum.