139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[11:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að svara síðustu spurningunni fyrst. Hv. þm. Björn Valur Gíslason svaraði því mjög afgerandi hér, sem er alveg rétt, að í þessum lögum er ekki gert ráð fyrir útgjöldum ríkisins. Það verður ekkert um það deilt. Eins og ég benti hins vegar á í ræðu minni verðum við að vera meðvituð um það, og ég held að það sé bara ágætt að þessir menn séu þá meðvitaðir um það, að ef verkefnið gengur ekki upp getur tvennt gerst. Ég sé tvennt í fljótu bragði, ég er samt ekkert að spá því að það gerist, það má ekki skilja orð mín þannig. Margt annað getur líka gerst, ég þekki það ekki, en ef verkefnið gengur ekki upp einhverra hluta vegna — ég minni á að umferð hefur dregist mjög mikið saman en við erum auðvitað að tala um þetta verkefni til margra ára eða áratuga og menn mega ekki horfa alveg í núið — er tvennt að gera, annaðhvort verður að greiða aukahlutaféð og eignast meira í hlutafélaginu sjálfu ellegar að menn fara að greiða niður gjöldin sem var rætt um í upphafi, þ.e. að fara svokallaða skuggagjaldaleið. Það er þetta tvennt sem kemur upp í huga mér, eða að félagið fer bara í þrot. Við vitum alveg að það verða engin Vaðlaheiðargöng þarna sem enginn á. Auðvitað mundi þá ríkið yfirtaka framkvæmdina sem er líka hugsunin í framtíðinni, að þegar búið er að borga niður verkefnið lendi það hjá okkur.

Við skulum vera meðvituð um það, ég geri mér að minnsta kosti fulla grein fyrir því að þessu fylgir ákveðin ábyrgð, að við getum þurft að yfirtaka félagið ef illa fer. Ég ítreka þó að ég er ekki að spá því.

Við höfum talað um sérstaka skattheimtu og ég fór mjög vel yfir þær hugmyndir í ræðu minni þegar þetta mál var rætt. Ég var dálítið hugsi, finnst þetta ekkert annað en aukaskattheimta og þá akkúrat á íbúana á þessu svæði. Ég gerði mjög vel grein fyrir því og hafði miklar athugasemdir við það. Þetta var þáttur í því að fara inn í stöðugleikasáttmálann þannig að þetta varð (Forseti hringir.) niðurstaðan.