139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[11:25]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að svara því síðasta sem hv. þingmaður spurði um, þ.e. hvort ég hefði verið eini hv. þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem studdi frumvarpið. Það er ekki þannig.

Hann segir líka að ég hafi viljað gera eignarnámsheimildina víðtækari. Ég sagði á fundi samgöngunefndar að ef menn ætluðu að setja sérstaka eignarnámsheimild í lögin um Vaðlaheiðargöng, þ.e. inn í annað hlutafélagið, teldi ég að það ætti að skoða að setja þessa heimild inn fyrir bæði hlutafélögin. Það er bara mín skoðun og hún liggur algjörlega fyrir. Ef við ætlum að setja sérstaka heimild til framkvæmdanna við Vaðlaheiðargöng, annað tveggja hlutafélaga, fyndist mér eðlilegra að það væri þá gert við bæði. Það er alveg klárt.

Síðan spyr hv. þingmaður um efasemdir mínar gagnvart þessu frumvarpi hér. Ég fór vel yfir þær í ræðunni. Hv. þingmaður kvartaði yfir tímalengdinni, að hann hafi aðeins misst þráðinn, en skoðun mín er alveg skýr, ef menn ætla að standa að baki þessu verkefni alla leið en ekki stökkva frá borði eftir á eiga menn að samþykkja þetta frumvarp. Það sagði ég mjög skýrt í ræðu minni.

Ég styð frumvarpið með fyrirvara sem ég fór líka yfir í ræðunni.

Hv. þingmaður segir eðlilegt að viðræður hefjist áður en farið er í framkvæmdir. Auðvitað er það alveg rétt hjá hv. þingmanni og hann á ekki að snúa svona út úr. Það sem ég sagði var: Er óeðlilegt að löggjafarvaldið grípi inn í eftir að viðræður hefjast? Því get ég ekki svarað þar sem ég er ekki lögfræðimenntaður, ég veit ekki svarið við þeirri spurningu og þess vegna velti ég henni upp. Það er það sem ég spurði mig og ég hef ekki svarið við þeirri spurningu. Því verða þeir að svara sem þekkja betur til í lögfræði en ég. Það er það sem ég var (Forseti hringir.) hugsi yfir við ákvörðunina.