139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[11:27]
Horfa

Frsm. samgn. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það frumvarp sem hér um ræðir snýr ekki að gjaldtöku, ekki á nokkurn hátt, en samt eyddi þingmaðurinn stærstum hluta máls síns áðan og andsvörum í að ræða gjaldtökumál. Hann beitti þeim rökum í málinu að efasemdir hefðu vaknað upp hjá honum varðandi málið í heild sinni. Auðvitað er farið af stað í viðræður um framkvæmdina, veglagningu inn á lönd, í þeirri von að ekki þurfi að beita eignarnámsheimild. Þess vegna eru þær oft settar inn í lög eftir á þegar samningar nást ekki. Eins og hv. þingmaður veit sjálfur eru ótal tugir ef ekki hundruð fordæma fyrir því í lagasafni Íslands sem Alþingi hefur samþykkt og hv. þingmaður á að hafa undir höndum.

Það sem mér fannst samt athyglisvert í ræðu hv. þingmanns er, eins og ég benti á áðan, að hann var eini þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem studdi þetta mál hér í fyrra, eini þingmaðurinn af 16 þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Það er hægt að fá útprentun af því ef hv. þingmaður trúir mér ekki. Það var einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem studdi málið og hann heitir Ásbjörn Óttarsson, hv. þingmaður. Aðrir studdu það ekki.

Þess vegna spyr ég: (Forseti hringir.) Vekur þetta litla mál um eignarnámsheimild þær efasemdir í huga hans varðandi (Forseti hringir.) framkvæmdirnar, og eignarnámsheimildin nær til allra framkvæmda sem lögin ná yfir, að hann telji rétt að hætta við þær? Það er þá frétt.