139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[11:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki svarað skýrar þessum útúrsnúningum hjá hv. þm. Birni Vali Gíslasyni sem mér finnst mjög ómaklegar. Í fyrsta lagi, svo það sé á hreinu, stóð ég að þessu nefndaráliti með fyrirvara. Ég gerði ákveðnar athugasemdir við það en mætti þó til þess að taka málið út úr nefnd.

Mig langar hins vegar að fara hér yfir þátttöku tveggja hv. þingmanna Samfylkingarinnar í samgöngunefnd. Þegar málið var á dagskrá var það fyrsta mál á dagskrá fundarins. Þá gerði annar hv. þingmaður kröfu um að málið yrði fært aftast. Formaður varð við því. Þegar málið kom síðan til umræðu síðast á dagskrá nefndarfundarins rauk þessi sami þingmaður á dyr. Annar hv. þingmaður Samfylkingarinnar sem sat fund samgöngunefndar sagði þegar verið var að afgreiða málið út að hann yrði ekki á því og áskildi sér rétt til að berjast gegn því hvenær sem væri og hvar sem væri og segja hvað honum fyndist um málið. Við skulum ekki rukka aðra um að hafa ekki staðið við það sem var sagt í nefndinni þegar þeir eiga það ekki skilið, heldur kannski hugsa um að reka stjórnarliðið inn í hús og reyna að hafa tök á því en ekki vera með einhverjar aðdróttanir hér gagnvart afstöðu minni í þessu máli.