139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[11:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður fór yfir að sýn manna er ólík á það hvernig staðið er að tollum eða sérstakri skattheimtu. Ástæðan fyrir því að frumvarpið er flutt hér er kannski sú, og það kemur mjög vel fram í greinargerð með frumvarpinu og nefndarálitinu, að ákveðin óvissa ríkir um hvort einkahlutafélagi eða hlutafélagi er heimilt að taka hluti eignarnámi. Hv. þingmaður nefndi í andsvari sínu að auðvitað er verið að taka fullt af hlutum eignarnámi þegar það þarf, sem er jú kannski ekki gott, hann nefndi vatnsból og fleira, en þá eru það yfirleitt opinberir aðilar sem gera það, sveitarfélögin eða ríkið, en ekki hlutafélög sem slík.

Það kemur líka mjög skýrt fram að til að fyrirbyggja allan misskilning og vandkvæði sem hugsanlega geta komið upp ef eignarnámsheimildin er ekki nægilega sterk í lögunum, sé betra að gera þetta svona. Þess vegna er frumvarpið flutt. Auðvitað er mjög sérstakt að það sé flutt af hv. þm. Birni Vali Gíslasyni en ekki hæstv. innanríkisráðherra, það er kannski spurning sem menn þurfa að spyrja sig: Af hverju er það gert þannig? Ég geri ekki athugasemdir við það en það er nokkuð sem þyrfti að skoða. Eins er alveg skýrt og kom fram í meðförum nefndarinnar að með eignarnámsheimildinni sem verið er að fella inn í verður ferillinn nákvæmlega sá sami og ef Vegagerðin mundi nýta hana. En við erum að setja lögin eftir að viðræður hefjast og það sem ég kom að í ræðu minni áðan og í andsvörum er sú áleitna spurning sem maður verður að spyrja sig að: Er þetta inngrip? Ég átta mig ekki alveg á því.