139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[11:58]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þó að það kunni að hljóma ankannalega í ljósi þess sem hefur verið að gerast í þingsal á umliðnum dögum og vikum í umræðum tengdum stórum málum ekki síst, eins og sjávarútvegsmálum, þá er afar ánægjulegt að vera þingmaður. Þegar ég var í samgöngunefnd þingsins frá 1999–2003 þá var það sem mér fannst skipta mestu að menn sæju heildarsamhengi hlutanna, að menn átti sig á að mikilvægt er fyrir alla þingmenn, alla landsmenn, að samgöngur séu góðar um land allt. Þá óskar maður eftir gagnkvæmum skilningi á mikilvægum samgönguframkvæmdum úti á landi eins og maður óskar eftir skilningi á því að við sem búum á suðvesturhorninu þurfum að hafa greiðar samgöngur. Hér eru þarfirnar öðruvísi en það þarf að taka tillit til þeirra. Um þetta og inn á þetta ætla ég að fara í máli mínu í ræðu hér á eftir.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Ef innanríkisráðherra dregur ekki lappirnar allt of mikið í þessu máli eins og öðrum, t.d. framkvæmdum á suðvesturhorninu, hvernig sér hv. þingmaður framvindu málsins? Ég ber ákveðinn kvíðboga fyrir því að ríkisstjórnin dragi lappirnar — af því að ég notaði það orðatiltæki — í framkvæmdum, ekki bara samgönguframkvæmdum heldur framkvæmdum á Norðurlandi, á Norðausturlandi, framkvæmdum á Bakka til að mynda. Ég held að ekki verði hægt að skilja algjörlega í sundur milli þeirrar samgöngubótar sem Vaðlaheiðargöngin eru og þeirra framkvæmda sem eru nauðsynlegar, ekki bara fyrir Norðausturlandið, ekki bara fyrir Húsvíkinga eða Akureyringa, heldur fyrir þjóðarbúið í heild sinni, að fara af stað með. Hvernig sér hann hugsanlega fram á það að framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng kunni að seinka vegna þess að öðrum framkvæmdum miðar ekkert áfram á norðaustursvæðinu?