139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[12:32]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er góð spurning og svarið er mjög einfalt: Það þarf að skipta um ríkisstjórn. Það er stóra svarið við spurningunni. Ég vil geta þess að ég var einmitt að reyna að draga fram aðrar framkvæmdir sem eru ekki á vegum ríkisins sem er nauðsynlegt að reyna að hvetja til að farið verði af stað með. Ég er að tala um þær opinberu framkvæmdir, upp á 6,5 milljarða, sem nú þegar er búið að gera ráð fyrir í fjárlögum. Ég spyr: Af hverju er ekki farið af stað nú þegar með þær framkvæmdir? Við erum búin að gera ráð fyrir þeim í fjárlögum. Við þurfum síðan að gera allt til að örva einkaframtakið. Það verður ekki gert með þeirri stjórnarstefnu sem er núna, með auknum álögum á fyrirtækin fyrir utan heimilin í landinu, það verður ekki gert með því að hækka tryggingagjaldið lon og don, því að það mun deyfa vilja minni og meðalstórra fyrirtækja til að fara af stað í auknar framkvæmdir og fjárfestingar. Að mínu viti þarf að breyta frá þeirri stjórnarstefnu sem nú er til að örva framkvæmdir. Það á að hætta að tala fjandsamlega til fjárfesta, ekki síst erlendra fjárfesta sem vilja koma hingað inn, og ógna þeim með því að ef þeir hegði sér ekki eins og forsætisráðherra óskar verði farið í ákveðna þjóðnýtingu.

Þannig að fyrsta svarið og augljósast er að skipta um ríkisstjórn. En ef ekki er hægt að gera það, þá er það skylda okkar í stjórnarandstöðunni að tala um fyrir ríkisstjórninni og sýna fram á að það þarf að örva fjárfestingar, við verðum að vaxa, við verðum að framleiða, við verðum að fara í að skapa — það verður ekki gert bara í gegnum opinberar framkvæmdir. Það vitum við manna best, Pétur Blöndal, ég og aðrir, ekki síst þingmenn Sjálfstæðisflokksins.

Mín ósk er sú að við notum þær heimildir sem við höfum nú þegar í lögum til að fara í einkaframkvæmdir og ekki síður í opinberar framkvæmdir. Um 16.000 Íslendingar eru atvinnulausir. Þeir þurfa að fá eitthvert svar.