139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[12:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Nú vitum við að hæstv. ríkisstjórn er mjög límsetin við stólana þannig að ég býst ekki við að það lagist neitt. Við þurfum því að lifa við það að ríkissjóður hafi lítið fé og einkaaðilar vilji ekki fjárfesta. Þá er spurningin: Eiga menn að fara út í æfingar eins og hér er verið að gera, þ.e. að fara út í ríkisframkvæmd án þess að kalla það ríkisframkvæmd, fela framkvæmdina, fela fyrir skattgreiðendum þær ábyrgðir sem í raun eru að myndast?

Varðandi það að skipta um ríkisstjórn, við skulum segja að það gerist, þá vaknar þessi spurning: Hvernig ætlum við að byggja upp traust fjármagnseigenda, einstaklinga, fjölskyldna, sem eiga eitthvert sparifé eða vilja spara, á hlutabréfum?