139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[12:36]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er mjög freistandi að fara í mikla umræðu um þessi mál.

Spurt er: Hvers vegna er ekki farið í að verja þeim fjármunum sem eru á fjárlögum til vegaframkvæmda? Það er verið að gera það. Víða eru framkvæmdir í gangi. Annars staðar eru útboð. Þessum fjármunum verður varið í þessi verkefni og þau eru í góðum farvegi.

Hér kemur þingmaður Sjálfstæðisflokksins og segir: Það eru ekki til peningar í ríkissjóði. Af hverju förum við ekki í einkaframkvæmd? Það er góð hugmynd, segir hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, förum í einkaframkvæmd. En við megum ekki hafa ríkisstjórn sem leggur endalausar álögur á fólk. Hver á að borga fyrir einkaframkvæmdina? Hver á að borga fyrir þessar framkvæmdir? Það eru að sjálfsögðu notendur. Það eru notendur þessa lands. Notendur þessa samgöngukerfis. Þetta er náttúrlega svo galin og rugluð umræða að hún er varla sæmandi.

Ég er hins vegar kominn til að svara fyrir þetta frumvarp. Þá var spurt, skilst mér, hvort ég sé andvígur frumvarpinu, hvers vegna ég hafi ekki lagt það fram. Ég er samþykkur frumvarpinu, það var í samráði við mig sem formaður samgöngunefndar setti málið fram. Það var gert á þennan hátt vegna þess að menn trúðu því að þannig gengi það hraðar í gegnum þingið. Þetta snýr fyrst og fremst að heimildum Vegagerðarinnar til eignarnáms og þá eru menn að horfa til framkvæmda við Vaðlaheiðargöng og þótti nauðsynlegt að setja málið í gegnum þingið.