139. löggjafarþing — 146. fundur,  9. júní 2011.

stofnun hlutafélaga um vegaframkvæmdir.

789. mál
[12:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hjartanlega sammála því. Ég gleymdi að nefna að auðvitað þarf hv. samgöngunefnd að ræða þetta mál og fara sérstaklega í gegnum það hversu miklar líkur séu á því að eitthvað falli á ríkissjóð af kostnaði fyrir þessa framkvæmd, sem nú er kominn að því er sumir telja upp í 20 milljarða. (Gripið fram í: Hvaða framkvæmd?) — Vaðlaheiðargöng. Ég hef heyrt þá tölu að með vöxtum verði kostnaðurinn 20 milljarðar en grunnkostnaðurinn 10 milljarðar. Ég vil endilega að menn spyrji að því — frú forseti, ég truflast dálítið af þessu …

(Forseti (ÁI): Forseti vill biðja hv. þingmenn að halda einn fund hér í salnum og hlýða á mál þess sem er í ræðustól.)

Þakka þér fyrir, frú forseti.

Ég tel að það sé mjög mikilvægt í öllum þeim framkvæmdum sem menn eru að fara út í þar sem einkavæða á ríkisvaldið, þ.e. þessi velferðarstjórn, vinstri stjórn, er að einkavæða ríkisvaldið, að þeir skoði hvað miklar líkur eru á því að kostnaður falli á ríkissjóð. Ef það hefði verið gert með sundlaugina á Álftanesi hefðu menn nánast strax getað sagt: Þessi fjármögnun mun lenda á sveitarfélaginu — og þá hefði átt að hætta við. Nákvæmlega eins þarf að gera með hverja einustu framkvæmd. Hvað eru miklar líkur á því að þessar áætlanir standist ekki og allt það? Oft eru þetta draumaáætlanir heimamanna. Hve miklar líkur eru á að þær lendi á ríkissjóði? Þetta verða menn að gera svo að þeir standi ekki upp eftir 10, 15, 20 ár voðalega hissa á að af himnum detti skuldbinding sem enginn vissi af, enginn skildi og enginn mundi eftir.