139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

niðurstaða í máli fyrir kærunefnd jafnréttismála.

[13:51]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Nú eru liðnir rétt um þrír mánuðir síðan kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að forsætisráðherra hefði gerst sek um brot á jafnréttislögum. Við skulum hafa það hugfast að niðurstaða kærunefndar jafnréttismála er bindandi. Það var m.a. áratugalangt baráttumál hæstv. forsætisráðherra að sú yrði raunin og svo er í dag. Við verðum líka að hafa það hugfast að ef einhver stjórnmálamaður og forustumaður í stjórnmálum er í lykilstöðu til að framkvæma það sem viðkomandi stjórnmálamaður hefur barist fyrir í áraraðir er það hæstv. forsætisráðherra.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra að því hvort búið sé að semja í þessu máli. Er búið að semja við tjónþola? Nú eru liðnir þrír mánuðir og vel það. Ætlar forsætisráðherra e.t.v. að fara með málið fyrir dómstóla? Ætlar forsætisráðherra ekki einfaldlega að viðurkenna brot sitt og semja við brotaþola í þessu máli? Eða ætlar forsætisráðherra að fara með málið fyrir dómstóla og láta skömm sína verða meiri fyrir vikið?