139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

skattar í vanskilum.

[13:57]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Ég hef fengið í hendur svar við fyrirspurn minni til hæst. fjármálaráðherra um áfallna ógreidda skatta, þ.e. skatta í vanskilum. Í lok mars á þessu ári námu áfallnir, ógreiddir skattar, skattar í vanskilum, 127 milljörðum kr., þar af er u.þ.b. helmingurinn vörsluskattar, virðisaukaskattur er stór hluti af því. Fyrirtæki þurfa að vera í verulegum vandræðum til þess að geta ekki greitt vörsluskatta, enda er þar um að ræða peninga sem fyrirtækin halda utan um fyrir ríkið og eru þegar orðnir eign ríkisins. Maður veltir því fyrir sér hvað það segi okkur um stöðu íslenskra fyrirtækja. Þetta er gríðarlega há upphæð, skattar sem ekki hafa innheimst. Er þetta ekki þrefaldur eða fjórfaldur árlegur rekstrarkostnaður Landspítalans?

Að hversu miklu leyti hefur fjármálaráðuneytið gert ráð fyrir þessum ógreiddu sköttum í áætlanagerð sinni? Að hversu miklu leyti skeikar áætlunum um ríkisfjármál og stöðu ríkisins í ljósi þessara upplýsinga?