139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

fólk í fjárhagsvandræðum vegna lánsveða.

[14:05]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni, mér finnst þetta hvorki réttlátt né eðlilegt. Þetta er einmitt sá þáttur sem við fórum mikið í gegnum þegar við fórum í síðustu aðgerðir með lánastofnunum og öðrum fyrir skuldug heimili, þessi lánsveð og hvernig hægt væri að taka á þeim. Þessi mál hafa reyndar verið rædd fyrir löngu í þingsal, t.d. varðandi lög um ábyrgðarmenn þar sem ég held að hafi verið fullur vilji fyrir því að undanskilja það að hægt væri að ganga að heimilum þeirra sem gengjust í ábyrgð. Það náðist ekki samkomulag um þetta við meðal annars bankana og þeir báru fyrir sig að um væri að ræða vernduð eignarréttindi sem ekki væri hægt að ganga að. Finni þingmaðurinn einhverja leið til að hægt sé að taka á þessu máli er ég meira en fús til að setjast yfir hana með honum.