139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

fólk í fjárhagsvandræðum vegna lánsveða.

[14:08]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Ég ítreka bara, virðulegi forseti, að ef við finnum færar leiðir í þessu efni er sjálfsagt að skoða þær. Hv. þingmaður nefndi greiðsluaðlögunina. Hér hefur ítrekað verið talað um að einungis sé búið að afgreiða 22 mál, en greiðsluferlið er alveg í samræmi við það sem Alþingi samþykkti í þessu máli. 2.800 eða 2.900 umsóknir hafa komið og það er búið að afgreiða frá umboðsmanni 800, en það tekur þrjá til fimm mánuði eftir að umboðsmaður hefur afgreitt málið að samþykkja þennan rétt. Það þarf að auglýsa, það þarf að fara af stað með kröfulýsingu, það þarf að semja við kröfuhafa o.s.frv. og það tekur þennan tíma. Ferlið í þessu máli er ekkert lengra en það. Vissulega vildum við hafa það hraðara en þetta tekur tíma. Eftir síðasta febrúarmánuð var aukið verulega við mannafla hjá umboðsmanni skuldara og hraðinn hefur aukist verulega. Hjá embættinu hafa verið afgreidd 200–300 mál á mánuði en jafnvel þó að umboðsmaður sé búinn að afgreiða mál tekur það þennan tíma. Þó að umboðsmaður segi að viðkomandi hafi þennan rétt þarf málið samt að fara í gegnum þessa kröfulýsingu sem tekur óhjákvæmilega þennan tíma. Það er allt gert sem hægt er til að hraða þessum málum þannig að það að halda því fram að bara 22 mál hafi verið afgreidd segir ekki allt um heildarmyndina.