139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

áhrif frumvarps um stjórn fiskveiða.

[14:19]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja, af því að ég hef orðið vör við að sá hv. þingmaður sem beinir fyrirspurn til mín kallar þá sem hér stendur friðarspilli og splæsir á hana heilli grein í Morgunblaðið af því tilefni, að mér finnst ég ekki bera þessa nafngift með rentu. Ég hef lagt mig mjög fram um að leita sátta í þessu máli og finna lausn á því sem er til þess fallin að hægt sé að afgreiða málið úr þinginu.

Að því er varðar fyrirspurn hv. þingmanns þar sem hann er að tala um áhrifin á stjórnarskrána og álit fjármálaráðuneytisins í því efni verð ég að segja að þó að álitið komi frá fjármálaráðuneytinu tel ég mjög hæpið að það standist að þessi ákvæði brjóti í bága við stjórnarskrána þó að vissulega þurfi að skoða það. Ég hef minnst á í því sambandi að árið 2007 þegar aflabrestur varð, voru ákvarðaðar 750 milljónir á þremur árum til þeirra sveitarfélaga sem orðið höfðu fyrir aflabresti. Þar var ákveðin skilgreining og það eru þau ákvæði sem fjármálaráðuneytið gerir athugasemdir við, að þetta skiptist misjafnlega milli sveitarfélaga. Þar er miðað við löndunina núna, í hvaða sveitarfélögum er landað, þannig að þeim hluta veiðigjaldsins sem fer til sveitarfélaganna er skipt samkvæmt því.

Ég veit að margir gera athugasemdir við það og mér finnst alveg sjálfsagt að skoða það mál og ganga alveg úr skugga um hvort það brjóti í bága við stjórnarskrána, en ég tel að svo sé ekki.

Varðandi þau álit sem beðið er eftir hefur það verið á forsjá sjávarútvegsráðherra og ég hef verið að reyna að reka á eftir því eins og hægt er, en þeir aðilar sem vinna að málinu telja sig þurfa þennan tíma. (Forseti hringir.) Eftir því sem ég hef spurnir af átti niðurstaða að koma núna fyrri hluta þessa mánaðar. Þá förum við yfir málin með Samtökum atvinnulífsins, eins og kveðið er á um í bókun við kjarasamningana.