139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[14:33]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir yfirferð hennar á frumvarpinu. Mig langar til að spyrja hana hvers vegna hér sé lagt til að taka upp þetta kerfi sem er spegilmynd íslenska sjávarútvegskerfisins sem Samfylkingin og Vinstri grænir róa nú að öllum árum að leggja niður. Ég óska þess að flug verði hér áfram sterkt til framtíðar og eins iðnaður sem þarf að losa gróðurhúsalofttegundir og styð það af heilum hug, en bendi þingmanninum á að það er eðlilegt að þessir aðilar séu mjög hlynntir frumvarpinu vegna þess að þegar lögin verða samþykkt afsalar íslenska ríkið sér samdægurs þeim losunarheimildum sem það hefur náð í gegnum íslenska ákvæðið á mengunarreynslu og færir þessum aðilum ókeypis. Það var gert þegar sjávarútvegskerfið var tekið upp hér á landi, þá var byggt á veiðireynslu, tekinn ákveðinn pottur og úthlutað úr honum.

Svona eru stundum andstæðurnar hér á þingi, til stendur að leggja niður eitt kvótakerfi og taka upp annað sem er alveg eins og hitt.

Mig langar líka til að spyrja þingmanninn hvort hún sé sátt við það sem kemur fram í nefndaráliti mínu, að við þessar aðgerðir leggjast 6–30 evrur á hvert flugsæti í nánustu framtíð og sú upphæð fer alveg örugglega mjög hækkandi til langrar framtíðar litið. Finnst henni eðlilegt að þetta skuli leggjast á almenning í þeim löndum sem um ræðir, sérstaklega þar sem þau undantekningartilvik koma í III. viðauka að þetta skuli ekki leggjast á meðal annars flug ríkisstjórna, herafla og þjóðhöfðingja? Er ekki verið að brjóta þarna ákveðið jafnræði með því að leggja þetta til?