139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[14:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það eru ýmis merki þess að jörðin sé að hlýna. Norðurskautið er að bráðna þannig að svo virðist sem þessi kenning sé rétt og þá er ekki seinna vænna að fara að snúa sér að því að vinna gegn koldíoxíðmenguninni. Þess vegna hlýtur svona markaður að koma fyrr en seinna. Ég get ekki séð hvernig öðruvísi á að halda niðri notkuninni.

Þá er spurningin hvort ekki sé orðið tímabært að fara að ræða hvað við ætlum að gera við afraksturinn af þessari auðlind. Ég tel að það hafi verið gerð ákveðin mistök þegar sjávarútvegskerfið var tekið upp á sínum tíma af því að menn ræddu það ekki út í hörgul. Kvótakerfið var tekið upp til bráðabirgða, eins árs til að byrja með ef ég man rétt, og þá höfðu menn ekki rætt í þaula hvernig þeir ætluðu sér að dreifa afrakstrinum og koma honum til þjóðarinnar.

Ég spyr hv. þingmann hvort ekki sé lag að bæði þingflokkar og hv. umhverfisnefnd ræði það hvernig við þessu verður brugðist eftir 10–15 ár.