139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[15:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég mátti til með að fara í andsvar við hv. þingmann þegar hann leggur til að frumvarpið verði fellt. Hann vill sem sagt hafa óvissu áfram og óljóst er hvernig eigi að fara með þessar losunarheimildir. Ég spyr: Hversu lengi? Hvenær eigum við að taka á þessum vanda? Hvenær eigum við að fara að undirbúa komu hins nýja kvótakerfis? Hvenær ætlum við að fara að ræða það hvernig við ætlum að dreifa þeim kvóta og skipta eignarhaldi á honum o.s.frv.?

Svo fannst mér það mjög áhugavert sem hv. þingmaður sagði í ræðu sinni sem var mjög góð, þ.e. um undanþágur. Þá vil ég benda á að allir starfsmenn í utanríkisþjónustunni eru meira og minna skattfrjálsir. Það byggir á samningi frá 1812 um skattfrelsi. Það virðist því vera að fyrirmennin í þjóðfélögunum, öllum þjóðfélögum, passi upp á það að þeir njóti allra þeirra hlunninda og réttinda sem aðallinn hafði einu sinni, en pöpullinn má greiða eins og hv. þingmaður kom inn á.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann vilji virkilega henda þessu frumvarpi út. Hvað tekur þá við?