139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[15:23]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir spurninguna. Árið 2008 var tekin pólitísk ákvörðun um að við mundum afsala okkur losunarheimildunum sem við höfðum fengið með íslenska ákvæðinu og mengunarreynslu. Tekin var pólitísk ákvörðun um að ganga þessu kerfi á hönd þá. Ég fer fram á það að embættismenn og ráðherrar ríkisins standi sig í að verja hagsmuni almennings og þjóðarinnar. En þetta er gömul ákvörðun. Ég hefði viljað sjá að við hefðum staðið við það því að íslenska ríkið átti þennan losunarkvóta þá, 15 milljarðar á verðlagi ársins 2007. Þeim kvóta var hent út í loftið og þessu kerfið gengið á hönd, því að ríki heims eru farin að eiga viðskipti með losunarheimildir og líta á það sem markaðsvöru, við hefðum alveg eins getað gert það sem ríki. En í frumvarpi þessu er lagt til að það verði ókeypis úthlutun til þeirra aðila sem stunda flugrekstur og til stóriðjunnar í fyrstu umferð eins og gert var með sjávarútvegskerfið og síðan fara viðskiptin af stað og fyrirtæki fara að kaupa og selja.

Mikið er lagt upp úr því að samþykkja þurfi frumvarpið á þessu þingi vegna þess að úthlutunarreglurnar fara fram 1. júlí á þessu ári varðandi flugið. Ég vil benda á í nefndarálitinu á bls. 12 að sækja átti um losunarheimildir fyrir stóriðjuna 30. júní 2010 og stóriðjan er örugglega búin að því og hefur gert það, en það þurfti enga lagasetningu til.

Ég vil að við skoðum málið betur og förum yfir það, sérstaklega í ljósi þess að bandarískir flugrekendur eru nú með mál fyrir dómstólum þar sem þeir hafna því að taka þátt í þessu og þurfa að borga sig inn í Evrópulofthelgina.

Ég minni þingmanninn líka á að við erum í mikilvægum flugum á milli (Forseti hringir.) Kanada og Bandaríkjanna. Þeir þurfa að fara að kaupa sig inn til að komast í íslenska lofthelgi.