139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[15:59]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ágætt að þingmaðurinn kom aðeins inn á þau atriði sem snúa að ríkinu því að nú á að færa þeim fyrirtækjum sem starfa í þeim greinum sem losa gróðurhúsalofttegundir heimildirnar ókeypis strax í upphafi vegna mengunarreynslu, við skulum bara kallað það það, eins og útgerðinni voru færðar fiskveiðiheimildir á sínum tíma á grundvelli veiðireynslu. Verið er að færa þessar heimildir frá íslenska ríkinu til þessara aðila og það er eins í fluginu. Það eru u.þ.b. 170 flugrekendur sem koma til greina sem hafa lent hér á landi á viðmiðunarárunum sem þurfa hugsanlega að sækja um að komast inn í kerfið, svo dæmi sé nefnt: Þeim er úthlutað heimildum og þeir fá þær sem einkaaðilar. Við skulum hafa það á hreinu.

Hins vegar mega fyrirtæki, einstaklingar og ríki, kaupa kvóta í þessu kerfi. Þá komum við að því sem þingmaðurinn kom inn á, að ríki gætu gripið til þeirra ráðstafana að draga úr skattlagningu einstakra atvinnugreina ef því sýndist svo. Þá gæti hæglega komið upp sú staða, þar sem við búum á eyju og erum afar háð flugi, að íslenska ríkið þyrfti að hamstra loftslagsheimildir til að halda hér uppi samgöngum. Við vitum ekkert um hvort þeir sem fá úthlutað heimildum fyrir fyrsta skipti í fluginu muni fljúga til Íslands um aldur og ævi.

Þetta er svona svipuð hugsun og t.d. varðandi lyfjafyrirtæki þegar nýtt bólusetningarlyf er sett á markað, þá alltaf ákveðinn hluti af framleiðslunni fyrir fram merktur ríkjum og ríkisstjórnum þeirra landa sem eiga viðskipti við framleiðslulandið. Hér er smám saman verið að búa til slíkt kerfi sem getur leitt það af sér að íslenska ríkið verði skuldbundið til að eiga viðskipti (Forseti hringir.) með þessa losunarkvóta á komandi árum. Það gæti líka gerst í stóriðjunni þannig að íslenska ríkið ívilnaði fyrirtækjum með því að láta þau hafa (Forseti hringir.) ríkiskvóta í stað þess að koma með kvóta til landsins með stóriðju.