139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[16:16]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni kærlega fyrir ræðu hans. Honum varð tíðrætt um dagsetninguna varðandi gildistöku laganna. Ég tel að sú dagsetning sé tilbúin, búin til í umhverfisráðuneytinu sjálfu, því að það hastar ekki svo mjög að gera þetta að lögum þrátt fyrir að það standi í greinargerð með frumvarpinu að umsóknir vegna flugkvótans skuli senda inn fyrir 30. júní 2011, eftir 20 daga. Og það er svo að þrátt fyrir að ekki sé komin lagaumgjörð um iðnaðinn og losunarheimildirnar í kringum hann átti að skila inn umsóknum í fyrra. Það hafa fyrirtækin nú þegar gert. Hér er því verið að skapa óeðlilegan þrýsting með þessu dagsetningahringli og segja að þetta verði að verða að lögum vegna þessa og þessa. En það kemur bara fram í frumvarpinu að svo er ekki. Auðvitað geta flugrekendurnir lagt inn umsókn um að fá losunarkvóta þó að þetta sé ekki orðið að lögum nákvæmlega eins og með iðnaðinn því að ákvæðið með iðnaðinn er ekki orðið að lögum. Tíminn leiðir það svo í ljós hvort Vinstri grænir hafi raunverulega stoppað það í ríkisstjórninni því að hugmyndin var að samkeyra þetta mál hér í gegn.

Mig langar að spyrja þingmanninn út í staðreynd sem stendur í greinargerðinni. Þar er talað um ETS-kerfi Evrópusambandsins og Evrópusambandið er með þessu að búa til peninga úr þessari alheimsauðlind. Runninn er út frestur hjá ríkjunum til að segja sig frá kerfinu og það vill svo til að Bretland, Þýskaland og Pólland hafa sagt sig frá þessu ETS-kerfi. Þetta er svipað og með Schengen-samninginn að Bretland er alltaf eitt og sér. Hvað finnst þingmanninum um það (Forseti hringir.) að þessi þrjú stóru ríki innan Evrópusambandsins treysti sér ekki til að taka þátt í þessu samstarfi og ætli að reka sína uppboðsmarkaði sjálf?