139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[16:23]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru auðvitað áhugaverðir fletir sem hv. þingmaður veltir hér upp. Nú eru hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar auðvitað betur til þess fallnir að skýra sjónarmið sín í þessum efnum en ég. Hér hefur löngum verið í salnum hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, framsögumaður meiri hlutans í málinu, og hún mun hugsanlega útskýra afstöðu sína til þessa máls hér á eftir. Reyndar er athyglisvert að hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafa ekkert sést við þessa umræðu en fulltrúar þeirra í umhverfisnefnd skrifuðu undir þetta og féllust með þeim hætti á að Ísland undirgengist aðild að þessu kerfi, sem eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir bendir á ber mikið svipmót af kvótakerfinu í íslenskum sjávarútvegi, bæði hvað varðar úthlutun á grundvelli reynslu, frjálst framsal o.s.frv. Þó að það sé auðvitað ekki algjör spegilmynd hefur það hins vegar í grundvallaratriðum mjög mörg einkenni sem eru hin sömu og í íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu. Enda er hugmyndin á bak við það sú hin sama, þ.e. þetta er takmörkuð auðlind og ætlunin er að nýta eftir því sem kostur er markaðsviðskipti til að ná fram sem hagkvæmastri nýtingu þessarar auðlindar. Það er auðvitað grundvallarhugsunin bæði í sjávarútvegskerfinu og í því kerfi sem við erum að tala um hér að reyna að ná sem mestri hagkvæmni út úr nýtingu takmarkaðrar auðlindar með því að nýta eftir því sem kostur er frjáls viðskipti og markaðsbúskap. Það er auðvitað mjög gaman að sjá að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar (Forseti hringir.) skuli sjá ljósið í þessu máli þó að þeir séu einhvern veginn blindaðir í öðrum málum sem við erum að ræða í þinginu.