139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[16:25]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér breytingu á lögum um losun gróðurhúsalofttegunda, nánar tiltekið um viðskiptakerfi með losunarheimildir innan Evrópusambandsins. Ég vil fyrst taka fram að þetta er mjög merkilegt mál og tekur á gríðarlega miklum vandamálum sem heimurinn stendur frammi fyrir sem er það að andrúmsloftið er takmörkuð auðlind. Kerfið sem hér er innleitt er hugsað þannig að fyrirtækjum í iðnstarfsemi sem er nánar tilgreint í frumvarpinu og flugrekstri er úthlutað 85% af sögulegri reynslu sinni af útblæstri og síðan þurfa þau að kaupa 15% heimildanna á uppboðsmarkaði. Síðan gerist það eftir að fyrirtækið er komið með allar sínar heimildir að það líður og bíður með tímann. Fyrirtækið gæti raunverulega reynt að spara sér fjármagnsbindingu með því að reyna að draga úr útblæstri og annaðhvort notað þann sparnað til að auka framleiðslu sína eða einfaldlega til að selja á markaði.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir benti réttilega á að þetta er algjörlega hliðstætt við það sem tíðkast í fiskveiðum á Íslandi, þ.e. kvótakerfið í fiskveiðum. Það er kannski kaldhæðni örlaganna að um leið og vinstri stjórnin vinnur að því með annarri hendinni að rífa niður kvótakerfi í íslenskum fiskveiðum og þá hagkvæmni sem þar hefur myndast, skuli hún með hinni hendinni setja nákvæmlega eins kvótakerfi á andrúmsloftið.

Við getum ímyndað okkur, ef ég tek dæmi, iðnaðarstarfsemi eða flugrekstrarstarfsemi þar sem einhver tiltekinn aðili er með einhvern iðnað og eftir því sem árin líða verður mengunarkvótinn dýrari eða verðmæti hans hækkar. Síðan ákveður þessi aðili að hætta framleiðslustarfsemi sinni og þá gæti hann hæglega lagt niður fyrirtækið, tekið kvótann og selt hann á uppboðsmarkaði í Evrópu, horfið út úr greininni með peningana og notað þá t.d. til að kaupa sér hlutabréf. Hljómar kunnuglega, frú forseti.

Ekki það að ég sé á móti kerfum eins og þessum, ég held að þetta sé hagkvæmt og beini notunum í hagkvæmustu átt, heldur vildi ég benda þeim sem hafa barist með annarri hendinni á móti fiskveiðistjórnarkerfinu, eins og ég benti á áðan, að þeir eru að innleiða með hinni hendinni nákvæmlega eins kvótakerfi með andrúmsloftið. Hér gæti því verið í uppsiglingu nýtt deilumál og ekki lengur talað um sægreifa heldur loftgreifa og þá eru nú að verða ýmsar greifatignirnar í íslensku atvinnulífi. Það er svo kannski annað mál.

Það sem ég vildi segja að lokum, af því ég vildi taka til máls til að gera aðeins grein fyrir þessum sjónarmiðum, er að ég tel að þetta sé til mikilla framfara, vegna þess að það að geta mengað loftið er að verða auðlind. Eins og við sjáum í aldeilis ágætu nefndaráliti frá Vigdísi Hauksdóttur og í greinargerð með frumvarpinu er verið að búa hér til verðmæti með því að úthluta einkaleyfum til þess að menga. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, frú forseti.