139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[16:41]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er svolítið kaldhæðnislegt að við séum að ræða þetta mál á sama tíma og annað kvótakerfi veldur slíkum deilum í þinginu að það er búið að vera illstarfhæft undanfarna daga og ekkert samkomulag um þingstörfin. Eins og komið hefur fram gengur þetta mál út á að verið er að reyna með alþjóðlegri samvinnu að koma í veg fyrir útblástur gróðurhúsalofttegunda eða réttara sagt að halda honum í skefjum og minnka hann. Til að svo megi verða setja menn upp kvótakerfi og eins og verið er að gera með því að deila út kvóta af takmarkaðri auðlind eftir reynslu, þ.e. þeir sem hafa dælt út áður fá 85% af því sem þeir hafa notað fram til þessa af þessari takmörkuðu auðlind. Síðan fara 15% á uppboðsmarkað.

Nákvæmlega þetta, virðulegi forseti, var gert á sínum tíma með íslenska sjávarútveginn og er nokkuð sem aðrar þjóðir hafa litið til, þ.e. reynsla okkar Íslendinga af aflamarkskerfinu, og menn telja að það hafi gengið það vel að það eigi að taka upp annars staðar, m.a. í þessum umhverfismálum. Svo að maður vitni aftur í sjávarútvegsmálin þá hafa alþjóðleg umhverfissamtök hvað eftir annað lýst yfir ánægju sinni með íslenska aflamarkskerfið og hvernig því hefur verið beitt og hvernig við höfum farið eftir ráðgjöf í tengslum við það og tekist að fylgja ráðgjöfinni nokkuð eftir út af því að stjórnkerfið hefur verið jafnskilvirkt og raun ber vitni. Menn geta haft ólíkar skoðanir á ýmsum þáttum sjávarútvegsins en ég held að þessu þurfi að halda til haga. Menn verða að vera mjög meðvitaðir um þessa kosti. Ef við gleymum þeim og ætlum að fara í eitthvað allt annað kerfi skulum við vera alveg viss um að það sé jafngott og vonandi betra. Í rauninni má því segja að með alþjóðlegri samvinnu sé verið að setja upp íslenska aflamarkskerfið, nema nú er sameiginlega auðlindin ekki fiskurinn heldur andrúmsloftið, og síðast þegar ég skoðaði þessi mál, sem er að vísu nokkuð síðan, var kominn markaður með kvóta. Þó svo að verðið væri ekki hátt og viðskiptin ekki mikil var samt sem áður kominn markaður og menn voru að kaupa og selja kvóta fyrir útblástur gróðurhúsalofttegunda. Það má segja að menn hafi verið að kaupa loft.

Það er einn galli við þetta allt í stóra samhenginu sem lítið hefur verið ræddur því að þau ríki sem eiga aðild að Kyoto-samkomulaginu hafa verið upptekin við að semja sín á milli um það hvernig eigi að taka á þessu á alþjóðlegum vettvangi. En það gleymist oft að þeir sem eru innan Kyoto-samkomulagsins eru lítill minni hluti jarðarbúa. Ef ég man rétt, virðulegur forseti, eru það fyrst og fremst Evrópuríkin sem eru aðilar að Kyoto. Ég veit ekki hvort Ástralía er komin inn en þeir voru alla vega ekki þar inni og ekki Bandaríkjamenn, því síður Kína og stóru ríkin sem eru að hasla sér völl sem iðnveldi. Fyrir nokkrum árum leit út fyrir að einungis 20% af útblæstri gróðurhúsalofttegunda væri innan Kyoto-ríkjanna ef þannig má að orði komast. Nú tala ég eftir minni en hlutfallið gæti verið eitthvað hærra en í það minnsta verður útblástur gróðurhúsalofttegunda í framtíðinni mestmegnis utan Kyoto. Það er því nokkuð erfitt fyrir eingöngu Kyoto-ríkin að ætla sér að setja hömlur og mörk ef önnur ríki fylgja ekki í kjölfarið. Það segir sig sjálft að það skiptir engu máli úr hvaða ríki útblásturinn kemur, hvort hann kemur frá Kína, Lúxemborg, Þýskalandi eða Indlandi, útblásturinn þekkir engin landamæri og veit þaðan af síður hvaða ríki eru innan Kyoto. Ég held að flestir séu sammála um að um hnattrænt vandamál sé að ræða. Það er því mjög mikilvægt að allir aðilar spili með.

Þegar við förum að takmarka okkur innan Kyoto-ríkjanna er hættan sú að menn sjái sér leik á borði og flytji útblásturinn til annarra ríkja, þ.e. fjárfestar fjárfesti þá frekar í löndum þar sem ekki þarf að greiða fyrir aðgang að andrúmsloftinu eða útblásturinn. Þá gerist tvennt: Annars vegar ná menn ekki þeim árangri sem þeir ætluðu að setja sér varðandi útblástur gróðurhúsalofttegunda og hins vegar færast atvinnutækifærin frá Kyoto-ríkjunum yfir til þeirra ríkja sem ekki eru aðilar að samkomulaginu.

Þetta er gríðarlega stórt mál, virðulegi forseti. Nú greinir menn á um hversu alvarlegt vandamál losun gróðurhúsalofttegunda er og sumir halda því jafnvel fram að þeim miklu fjármunum og orku sem menn nota til að takmarka losun á vettvangi Kyoto-ríkjanna og á fleiri stöðum væri skynsamlegra að veita í annars konar náttúruvernd og umhverfisvernd. En látum það liggja á milli hluta því að aðalatriði málsins er að fá fleiri ríki að borðinu til að taka þátt í þessu samstarfi.

Stóra málið er ekki auðvelt. Það er einfaldlega sjónarmið fátækari ríkja sem segja: Við eigum eftir að fara í gegnum iðnbyltinguna. Á mörgum sviðum eins og í Kína, þó svo að stórkostlegar framfarir hafi orðið þar og Kína sé núna með stærra hagkerfi en Japan, sem hefði verið óhugsandi fyrir nokkrum áratugum, nær velmegun eða góð lífskjör til tiltölulega lítils hluta þjóðarinnar. Enn er stór hluti þjóðarinnar mjög fátækur og á eftir að ná þeim lífsgæðum sem fólk vill eðli máls samkvæmt. Menn hafa fram til þessa ekki fundið leiðir til að ná betri lífskjörum án þess að menga umhverfið og sérstaklega þar sem fátækt er og lítið af fjármunum því að þar er ódýrara og ásættanlegra, vegna þess að menn eru ekki með sömu umhverfisviðmið og við, að fara mengunarleiðir en umhverfisvænar leiðir. Þessir aðilar segja ekki sanngjarnt að þeir eigi núna að draga saman í útblæstri á gróðurhúsalofttegundum þegar öll þessi verkefni eru eftir, þeir eiga eftir að ryðja lífskjarabrautina fyrir svo marga. Það er án vafa sjónarmið sem taka ber tillit til en þá mundum við lenda í þeim vanda að jafnvel þó svo að iðnríkin svokölluðu, sem eru innan Kyoto, tækju alla skerðinguna og mundu þar af leiðandi ekki vera með neinn útblástur dygði það ekki til til þess að ná þeim markmiðum sem lagt var af stað með. Í þessu felst ákveðin mótsögn sem erfitt er að eiga við. Því harðar sem gengið er að Kyoto-ríkjunum þeim mun meiri líkur eru á því að fjárfesting verði minni þar og starfsemi og atvinnutækifæri fari þaðan til annarra landa og þar af leiðandi versni lífskjör hjá Kyoto-ríkjunum og þess verður krafist enn frekar að þurfa ekki að vera með þessi ströngu umhverfisskilyrði út frá efnahagslegum forsendum.

Í fljótu bragði sér maður ekki neinar aðrar lausnir en tæknibreytingar. Við verðum á næstu árum og áratugum að finna umhverfisvænni lausnir á mörgum sviðum. Það á við í framleiðslu, eins og á áli, og í samgöngum og öðru slíku. Það er t.d. sorglegt að sú þróun sem var hafin af krafti fyrir nokkrum áratugum með rafbíla var stöðvuð. Hvaða ástæður voru fyrir því að bandarískir bílaframleiðendur hættu þróun á því sviði? Við getum látið liggja á milli hluta hver ástæðan var en það er mjög slæmt að þeir hættu. Eins og staðan er núna held ég að sú lausn sé líklegust til að ná árangri í að minnka gróðurhúsalofttegundir ef við hugsum um samgöngur, landsamgöngur. Menn hafa nefnt vetni sem er spennandi valkostur en það þarf svo gríðarlega mikla orku til að búa til vetni. Það er hætt við því ef vetni yrði búið til í miklum mæli að það mundi kalla á útblástur gróðurhúsalofttegunda.

Nú komum við aftur að íslenska málinu sem lítið hefur verið í umræðunni. Umhverfismál á Íslandi hafa verið svolítið sérstök í allri umræðu. Þau eru: Hvað eigum við Íslendingar að gera? Ef ég man rétt eru 70–80% af orkugjöfum okkar endurnýjanlegir, umhverfisvænir orkugjafar. Við erum með algjöra sérstöðu í heiminum. Ég held að flestir séu sammála um að við eigum helst að ganga lengra og standa okkur enn betur, en það er á kostnað einhvers og svo sannarlega á kostnað náttúrunnar. Ef við ætlum að virkja vatnsaflið meira þurfum við að byggja fleiri stíflur. Ef við ætlum að nýta gufuna í auknum mæli þurfum við að byggja hér gufuaflsvirkjanir.

Hér á landi, ég held að það sé ekki í mörgum öðrum löndum, hefur orkuöflun verið talin hrein og bein árás á náttúruna af mörgum. Við þurfum að finna eitthvert jafnvægi í þessu, virðulegi forseti. Við höfum stundað þetta á undanförnum árum en ekki aðrir. Það hefur gert það að verkum að við höfum mikið sóknarfæri í að selja slíkar upplýsingar og þekkingu okkar annars staðar. Ástæðan fyrir því að við Íslendingar höfum þótt vera betri en aðrir hvað umhverfisvæna orkuöflun varðar er ekki vegna þess að við séum klárari og betri en annað fólk heldur vegna þess að við höfum sinnt þessu á meðan aðrir hafa ekki gert það. Það er hægt að nýta jarðvarma á mjög mörgum stöðum. Það er hægt að nýta jarðvarma í Evrópu og er gert í tiltölulega litlum mæli, það er hægt í Bandaríkjunum, það er í rauninni hægt í allri Ameríku, bæði Mið- og Suður-Ameríku, sérstaklega Mið-Ameríku, og ég tala nú ekki um í Asíu. Það er ástæða fyrir því að hér er jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna. Hann var staðsettur hér vegna þess að Íslendingar þóttu vera bestir á þessu sviði og hafa mest fram að færa. Það er afskaplega mikilvægt að við höldum þeirri stöðu og verðum alltaf í fremstu röð með umhverfisvæna orkugjafa, að hér sé þekking og skólar og rannsóknir sem tryggja að við höldum því forskoti sem við höfum haft á þessu sviði.

Ástæðan fyrir því að ég er að ræða þetta, virðulegi forseti, er fyrst og fremst til að brýna það fyrir hv. stjórnarliðum vegna þess að oft gleyma menn þessu þegar þeir tala um umhverfismál og þá vísa ég í núverandi ríkisstjórn. Menn loka augunum fyrir þessum staðreyndum og líta bara á þann þátt að við nýtum umhverfisvæna orku, sem við verðum að gera og nú er ég ekki bara að tala um Íslendinga heldur jarðarbúa því að það er engin önnur leið ef við ætlum að ná þeim markmiðum sem frumvarp ríkisstjórnarinnar gengur út frá, þ.e. að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Við verðum að nota umhverfisvæna orkugjafa eins og við Íslendingar höfum gert. Ef allar þjóðir væru í sömu stöðu og Íslendingar, þ.e. 80% af þeirri orku sem þær notuðu væri umhverfisvæn, væri útblástur ekkert vandamál. Þá þyrftu menn ekkert að setjast niður á vettvangi Kyoto til að semja og búa til kvótakerfi eins og er verið að gera, þess þyrfti ekki. Ef ástandið væri alls staðar eins og á Íslandi væri ekkert vandamál með útblástur gróðurhúsalofttegunda.

Það er áhugavert að Evrópusambandið skuli líta til þess kerfis sem við höfum haft á Íslandi, aflamarkið í sjávarútvegi, til þess að leysa þennan umhverfisvanda. Það má færa rök fyrir því að takmörkunin á sjávarauðlindinni sé umhverfisvandi líka. Þeir leita í smiðju okkar Íslendinga við lausn á þeim vanda og ríkisstjórnin leggur það mál fram og gerir að sinni stefnu. Þegar ríkisstjórnin er búin að því, virðulegi forseti, ætlar hún að eyðileggja það kerfi sem er fyrirmyndin að því kerfi sem Evrópusambandið er að taka upp, íslenska aflamarkskerfið. Það er kaldhæðni að þrátt fyrir allt tal um umhverfisvernd hjá hv. þingmönnum stjórnarflokkanna gangi þeir þvert á þau markmið með breytingum í sjávarútvegsmálum.

Það sem er líka kaldhæðnislegt, þó að það tengist þessu máli ekki beint, og hefur að ég held farið mest í taugarnar Íslendingum varðandi aflamarkskerfi okkar er að ríkisstjórnin skuli leggja til í ljósi þess að menn geta selt sig út úr greininni, mönnum finnst það misjafnlega sanngjarnt eða ósanngjarnt, að þeir aðilar sem hafa selt sig út og hagnast oft og tíðum geti komist aftur inn í greinina án þess að leggja fram neina fjármuni. Þeim aðilum sem keyptu og vilja vera í greininni og stunda hana, sem ég held að fari ekki í taugarnar á fólki, er gert erfitt fyrir og hegnt fyrir að hafa viljað stunda sjávarútveg og samkeppnisstaða þeirra er mjög erfið gagnvart þeim sem hafa selt sig út og hirt hagnaðinn.

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur marga galla eins og öll. Stærsti einstaki gallinn er alþjóðlegur. Hann er sá að það eru ekki allir með. Meðan svo er er erfitt að vinna bug á þessu stóra alþjóðlega vandamáli en þetta kerfi sem lagt er upp með er væntanlega það illskásta eins og íslenska aflamarkskerfið.