139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[17:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt, jafnvel þó að ásetningurinn sé góður eykur það líkurnar á því að það verði mengað jafnvel meira og að útblástur verði meiri vegna þess að ef sú starfsemi sem er hér á landi, sem er knúin áfram af umhverfisvænni orku, fer til annarra landa eru í það minnsta jafnmiklar líkur á því að þar verði starfsemin knúin af orkugjöfum sem fylgir útblástur, þar af leiðandi er um að ræða tvöfaldan útblástursvanda. Þegar þeir eru ekki innan þessa kerfis skiptir það engu máli, þeir þurfa þá ekki að standa nein skil á því, það er rétt hjá hv. þingmanni.

Varðandi kostnaðinn þá þarf sannarlega að vera vakandi yfir honum. Ég tók lítið dæmi um námskeiðskostnað í tengslum við hreindýraveiðaleiðsögn og -leyfi frá Umhverfisstofnun. Ég held að enginn hafi haft hugmyndaflug í að koma námskeiðsgjöldum upp í 160 þús. kr. þegar samþykkt var að hafa gjaldtöku fyrir námskeið fyrir hreindýraleiðsögumenn. Þegar námskeið var haldið fyrir 10 árum tóku 100 manns þátt í því, nú eru það 30. Námskeiðin eru haldin á Egilsstöðum. Það þýðir að það eru tæplega tvær milljónir í ferðakostnað fyrir þá sem eiga að halda námskeiðið. Það er í það minnsta ekki hugsunin að halda kostnaði í lágmarki hjá þeirri stofnun sem stendur fyrir þessu og það er algjörlega óþolandi.

Ég veit ekki hvað liggur til grundvallar varðandi þessar tölur en það er ekki forsvaranlegt að auka endalaust kostnaðinn þó svo að málstaðurinn, umhverfisvernd, (Forseti hringir.) sé góður því að það eru alltaf einhverjir sem þurfa að borga hann.