139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[17:06]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem þingmaðurinn kom inn á. Oft er farið af stað með falleg og göfug markmið, en eins og hv. þingmaður benti á hefur kostnaðurinn við hreindýraveiðar undið upp á sig.

Mér er til efs að þegar þáttaskil urðu í umhverfismálum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna árið 1972 að þeir frumkvöðlar sem áttu þátt í þeirri ráðstefnu hefðu nokkurn tímann látið sér detta í hug að það væri búið að gera andrúmsloftið að auðlind sem væri veðsetjanleg og ætti að ganga kaupum og sölum í stað þess að vernda náttúruna sjálfa og andrúmsloftið. En núna hafa markaðsöflin tekið við umhverfinu í stað þess að allir jarðarbúar sjái til þess að við göngum betur um.

Mig langar til að halda áfram með spurninguna varðandi kostnaðinn sem birtist í frumvarpi eftir frumvarp, sérstaklega í þeim frumvörpum sem lúta að tilskipunum Evrópusambandsins, sem ég kalla kratavæðingu því að það er alltaf verið að búa til eftirlitsstofnanir og verið að fjölga opinberum starfsmönnum og þess háttar. Ég bendi á að t.d. á Umhverfisstofnun eru um 80 stöðugildi. Samkvæmt frumvarpinu, verði það að lögum, þarf að bæta þar við þremur og hálfum starfsmanni bara til þess að geta haft eftirlit með kerfinu sem verið er að setja á, plús kostnað upp á tæpar 50 milljónir á hverju ári. Finnst þingmanninum þetta bruðl með ríkisfé forsvaranlegt þegar leitað er að klinki og gjaldeyri í öllum vösum hjá landsmönnum?