139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[17:10]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Við ræðum mál sem ég tel vera afskaplega mikilvægt. Ég ræddi um það áðan og notaði meira að segja ekki nema helminginn af tíma mínum því að ég vissi að tíminn er naumt skammtaður í dag, ég vildi ekki fara í neitt málþóf eða neitt slíkt. En ég reyndi að koma þeim atriðum að sem ég var með og lagði fram nokkrar spurningar, þar á meðal til hv. formanns nefndarinnar. Svo vildi ég gjarnan að hæstv. umhverfisráðherra kæmi hér líka því að hún sér um þessi mál á Íslandi. Það hefur enginn hæstv. ráðherra komið á þennan fund og ég veit ekki hvað ég á að gera. Verð ég að fara aftur í ræðustól og endurtaka spurningar mínar sem voru um hvort menn ætluðu að taka upp markað hér á landi fyrir kolefnislosanir eða viðskipti með þær, og hvort menn væru farnir að undirbúa hvernig eignarhaldinu yrði háttað á þessu í framtíðinni? Ég geri ráð fyrir því að Landsvirkjun og öll raforkufyrirtækin verði gífurlega verðmæt í kjölfarið.