139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[17:12]
Horfa

Frsm. minni hluta umhvn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar til að taka undir orð hv. þm. Péturs H. Blöndals um að það er lágmark að hæstv. umhverfisráðherra láti sjá sig í þinghúsinu í dag.

Ég hélt að umræðurnar yrðu ekki svona langar vegna þess að ég var ein á minnihlutaálitinu, en svo virðist sem þingmenn séu skyndilega komnir með áhuga á málinu vegna þess að það er komið til 2. umr. og er langtum stærra en nokkrum datt í hug.

Hv. varaformaður umhverfisnefndar er nýlega genginn í salinn en hér koma þingmenn í ræðu eftir ræðu og eru með spurningar en það er enginn frá ríkisstjórninni til andsvara. Það er helst ég, stjórnarandstæðingurinn, sem hef svarað spurningum sem vaknað hafa hjá þingmönnum.

Frú forseti. Það er ekki hægt að bjóða þingmönnum upp á að tala fyrir tómum sal, með bekkina tóma fyrir aftan okkur, og sjálfur fagráðherrann sem ber ábyrgð á þessu frumvarpi, er ekki stödd í húsinu. (Forseti hringir.) Ég óska eftir því að hún verði kölluð til.