139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

losun gróðurhúsalofttegunda.

710. mál
[17:19]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Eins og ég gat um áðan er mér óljúft að ræða mikið meira um þetta mál sem ég tel mjög mikilvægt. Ég kom með nokkrar spurningar um hvort ráðuneytið hafi undirbúið markað með losunarheimildirnar en hann getur orðið mjög mikilvægur og stór að mínu mati. Menn geta farið að rækta skóg og fá þá greitt og aðrir sem nota losanir þurfa að kaupa þær.

Ég hef sérstakan áhuga á að vita hvað er að gerast í Evrópu en ég fæ ekki upplýsingar. Ég reyndi að fletta upp stóru orkuveri í námunda við Köln sem ég þekki vel til sem brennir brúnkol til að framleiða raforku. Ég geri ráð fyrir að frá árinu 2008 hafi þeir borgað mjög mikið fyrir losunina á koldíoxíði fyrir brennsluna á brúnkolunum og ef ekki og þeir hafa fengið það gefins munu þeir væntanlega reyna að selja það. Það er miklu skynsamlegra að selja þessar losanir en að vera að grafa upp brúnkol.

Þetta er nákvæmlega sama sem er að gerast hér með kvótann í sjávarútvegi. Sérhver takmörkun á aðgangi manna að einhverri starfsemi eða einhverju slíku býr til verðmæti, það er bara svo einfalt. Og það er mjög auðvelt að rökstyðja það. Við erum hér að búa til verðmæti.

Önnur spurning mín til varaformanns nefndarinnar eða frummælanda málsins og eins til ráðherrans sjálfs og reyndar hæstv. ríkisstjórnar í heild sinni er sú hvort menn hafi áttað sig á því að þeir séu í rauninni að sigla inn í sama kerfi og með kvótann í sjávarútvegi, nákvæmlega sama kerfi. Núna eru þeir að gefa ákveðinn kvóta og verður þá ekki allt vitlaust eftir fimm eða sex þegar í ljós kemur hvað eignarhaldið er mikils virði?

Ekkert er gert. Það er bara hugsað til næstu viku, hvernig leysum við kjarasamningana eða komum þeim á koppinn og hvað gerum við í næstu viku? En hvað gerist eftir eitt, tvö, þrjú ár, svo maður tali nú ekki um fimm eða tíu ár? Sú framtíð er bara ekki til.