139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

staðfesting samnings milli Íslands og Noregs um kolvetnisauðlindir á markalínum.

679. mál
[17:22]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu samnings milli Íslands og Noregs um kolvetnisauðlindir sem liggja yfir markalínur.

Um er að ræða rammasamning um einingarnýtingu kolvetnisauðlinda sem er að finna beggja vegna markalína landgrunns Íslands og Noregs. Samkvæmt samningnum skal í þeim tilvikum þegar olíu- eða gasauðlind nær yfir á landgrunn beggja ríkjanna gera sérstakan samning um skiptingu auðlindarinnar á milli ríkjanna og um nýtingu hennar sem einingar.

Reglurnar eru almennt sambærilegar við ákvæði annarra milliríkjasamninga á þessu sviði en taka sérstakt tillit til hins sameiginlega nýtingarsvæðis, þar á meðal þeirra sérstöku réttinda sem Ísland nýtur þar umfram Noreg samkvæmt samkomulagi þar um frá 22. október 1981. Reglurnar gilda ekki aðeins um markalínu landgrunnsins milli Íslands og Jan Mayen heldur um markalínu landgrunnsins á milli Íslands og Noregs í heild.

Utanríkismálanefnd hefur fjallað um málið og er samdóma um að leggja til að tillagan verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita auk þess sem hér stendur Valgerður Bjarnadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Bjarni Benediktsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Helgi Hjörvar, Ólöf Nordal og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.