139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

staðfesting samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á árinu 2011.

680. mál
[17:27]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Utanríkismálanefnd hefur fylgst reglulega með gangi viðræðna um makrílmálið eins og hv. þingmaður spyr um og ég get upplýst að bæði utanríkismálanefnd og raunar einnig sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hafa haldið sameiginlega fundi þar sem viðræðuaðilar okkar í þeim efnum hafa komið og gert grein fyrir stöðu mála. Það verður hins vegar að segjast eins og er að slíkur fundur hefur ekki verið alveg nýlega þannig að ég get ekki upplýst hv. þingmann um það eða sagt með fullri vissu um það hver staðan í viðræðunum er í augnablikinu.

Bæði utanríkismálanefnd og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd fylgjast reglulega með málinu og ráðuneytin hafa einnig óskað eftir að koma á fund nefndarinnar ef einhverra tíðinda er að vænta eða eitthvað er að gerast í viðræðunum sem brýnt er að greina frá. En eins og sakir standa núna er nokkuð um liðið síðan þau mál bar síðast á góma í nefndinni þannig að ég hef ekki upplýsingar um nákvæma stöðu málsins í augnablikinu.