139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2011.

739. mál
[17:33]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég get svarað síðustu spurningunni, um hvort utanríkismálanefnd fari ítarlega í samninga af þessum toga, með því að það ræðst dálítið af efni samninganna og hvernig þeir eru. Utanríkismálanefnd fær kynningu á svona samningum og þar gefst nefndarmönnum að sjálfsögðu tækifæri til að spyrja út í þá. Síðan fylgja þeir alltaf með tillögunum sem fylgiskjöl og eru birtir þar. Þá er fjallað um það hvort um sé að ræða óbreytta framlengingu á gildandi samningum eða hvort um er að ræða ný ákvæði. Í þessu tilfelli er ekki um neitt slíkt að ræða, þetta er óbreyttur samningur frá fyrra ári.

Til að svara spurningunni um hvaða fisktegundir þetta eru er í fyrsta lagi um það að ræða að færeysk nótaskip fá á loðnuvertíðinni 2011/2012 heimild til að veiða 30 þús. lestir að því gefnu að leyfilegur heildarafli nái að minnsta kosti 500 þús. tonnum. Ef hann er minni er hlutdeild Færeyinga 5%.

Síðan er einnig um að ræða að færeyskum skipum eru heimilaðar veiðar á kolmunna og norsk-íslenskri síld innan efnahagslögsögu Íslands á árinu 2011.

Í þriðja lagi eru íslenskum skipum heimilaðar veiðar á kolmunna og norsk-íslenskri síld innan fiskveiðilögsögu Færeyja á árinu 2011 og loks er hér um að ræða að íslenskum skipum eru heimilaðar veiðar á allt að 1.300 lestum af makríl innan fiskveiðilögsögu Færeyja á árinu 2011 og veiðar á allt að 2 þús. lestum af síld úr síldarstofnum öðrum en þeim norsk-íslenska.

Þetta er það sem þessi samningur nær til. Þetta er ekki stóri makrílsamningurinn. Þær viðræður, eins og ég gat um í svari mínu við fyrirspurn hv. þm. Birgis Ármannssonar áðan, eru í sérstökum farvegi þannig að þær eru ekki inni í þessu fyrir utan það sem segir í samningnum um 1.300 lestir af makríl sem íslenskum skipum er heimilað að veiða innan fiskveiðilögsögu Færeyja á árinu 2011.