139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2011.

739. mál
[17:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæt svör. Ég hef eiginlega síst áhyggjur af samningnum við Færeyinga, Færeyjar eru allt að því vinir okkar. Þeir stóðu með okkur og settu engin skilyrði um lánveitingar haustið 2008, reyndu ekkert að kúga okkur til að samþykkja Icesave eða neitt slíkt, þeir lánuðu okkur bara og hafa staðið þétt við hliðina á okkur þannig að ég hef ekki miklar áhyggjur af samningnum við þá.

Hins vegar geta óbreyttir samningar haft heilmikil áhrif. Ef það eru gerðir óbreyttir samningar aftur og aftur getur myndast hefðarréttur innan ekki langs tíma sem getur haft mjög alvarlegar afleiðingar þannig að menn þurfa líka að passa óbreytta samninga.