139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

ákvörðun EES-nefndarinnar um breyt. á XIII. viðauka við EES-samninginn, reglugerð nr. 216/2008.

621. mál
[17:54]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að tefja þennan fund mikið með þessu en ég tel hins vegar rétt að taka aðeins til máls um þetta mál.

„Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi“ er orðtak sem mér dettur í hug vegna málsins, þó að það eigi kannski ekki bókstaflega við. Hér liggur fyrir mjög ítarlegt og langt nefndarálit vegna ákvæðis í reglugerð ESB, sem er smávægilegt í heildarmynd reglugerðarinnar og smávægilegt með tilliti til þess hversu áríðandi það er fyrir starfsemina sem reglugerðin tekur til, þ.e. flugstarfsemi, að hún öðlist gildi hér á landi.

Ákvæðið vekur hins vegar spurningar um framsal valds til Eftirlitsstofnunar EFTA, sem er yfirþjóðleg stofnun, og þess vegna er áríðandi að löggjafarsamkundunni sé fullkomlega ljóst hvað hangir á spýtunni og að þingmenn hafi það í huga þegar þeir greiða atkvæði um tillöguna.

Flugöryggisstofnun Evrópu hefur það hlutverk sem nafnið ber með sér. Þegar hún var stofnuð var henni falin ábyrgð á lofthæfis- og öryggismálum flugvéla og umhverfisþátta. Með reglugerðinni sem hér er til umræðu er ábyrgð á rekstri og starfrækslu flugvéla og útgáfa skírteina áhafna, svo eitthvað sem nefnt, einnig fært til stofnunarinnar.

Þegar ég tala um að stofnunin beri ábyrgð er átt við að hún setur reglurnar en flugmálastjórnir í aðildarríkjunum framfylgja þeim og sjá til þess að þeim sé framfylgt og gefa út tilskilin vottorð sem síðan eru viðurkennd í öllum þeim ríkjum sem eiga aðild að stofnuninni.

Þróunin á regluverki ESB um flug er nokkuð einkennandi fyrir Evrópusamvinnuna. Fyrst voru viðskiptalegar reglur settar, heilmikið regluverk var samþykkt til að búa til einn flugmarkað innan Evrópusambandsins og gera flugstarfsemi frjálsa innan sambandsins, auka samkeppnina. Mér þótti allt regluverkið sem þurfti til að koma samkeppninni á oft svolítið mótsagnakennt, þetta á bæði við um t.d. flugrekstur og fjarskipti, en svona er það nú samt.

Þegar frelsi og samkeppni var komið á í fluginu beindust augun að því allir yrðu að búa við sömu öryggiskröfur og þá var Flugöryggisstofnunin sett á laggirnar. Fyrst náði valdsvið stofnunarinnar einungis til flugvéla eða loftfara og síðan til reksturs og starfrækslu flugvéla eins og ég hef sagt áður. Noregur og Ísland sóttu það fast að fá aðild að Flugöryggisstofnuninni og fengu vilja sinn í því efni.

Með þessari reglugerð er Flugöryggisstofnuninni fært vald til að leggja til við framkvæmdastjórn ESB að sekta eða mæla fyrir um févíti ef hönnunarfyrirtæki sem framleiða hluti til að nota um borð í flugvélum standast ekki þær kröfur sem þeim ber að uppfylla samkvæmt vottorði sem gefið hefur verið út. Vandinn er sem sagt að sektarvald er fært til ESA sem er yfirþjóðleg stofnun.

Íslendingar og Norðmenn munu hafa reynt að semja um að þetta vald yrði veitt flugmálastjórnum en ekki náðist samkomulag þar um og krafa framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er sú að sektarvaldið verði hjá Eftirlitsstofnun EFTA. Væntanlega skýrist það af því að sama skuli yfir alla ganga, það séu ekki innlend yfirvöld sem fari með sektarvaldið. Áður en þessi reglugerð tók gildi gat Flugöryggisstofnunin einfaldlega endurkallað vottorð af þessu tagi, en þá var líka klárt að allir sátu við sama borð.

Þá kemur að því hvort það standist stjórnarskrá að flytja þetta sektarvald út fyrir landsteinana og það er sannarlega á gráu svæði, virðulegur forseti. Í stjórnarskránni er engin bein heimild til að færa vald út fyrir landsteinana og því getur Alþingi í raun ákveðið með gerðum sínum hvort það telji ákveðna gerninga sem snúa að samstarfi við önnur ríki rúmast innan stjórnarskrárinnar.

Vegna þessa máls sem við fjöllum sérstaklega um hér var leitað til sérfræðinga í stjórnskipunarrétti og er niðurstaða þeirra að ekki sé hægt að slá því föstu að það sé í bága við stjórnarskrána en þau segja heldur ekki að það rúmist innan stjórnarskrárinnar. Stefán Már Stefánsson prófessor segir í áliti sínu sem hann tók saman um þetta mál, með leyfi forseta, að ekki megi þrengja um of að möguleikum Íslands til að tryggja hagsmuni sína í þjóðréttarsamningum og einnig að Alþingi hafi ákveðið svigrúm til að skýra stjórnarskrána með bindandi hætti. Einnig að rétt sé að fram komi að umræddar reglur muni taka til mjög fárra aðila hér á landi og gildi auk þess á mjög þröngu sviði.

Niðurstaða prófessorsins vegna þessara röksemda er, með leyfi forseta, að erfitt geti verið að fullyrða að slík löggjöf brjóti í bága við stjórnarskrána.

Nú dettur mér í hug orðtak sem hljóðar svo: „Sá á kvölina sem á völina.“ Nú verður hver að dæma fyrir sig, af skýrslum og ábendingum lögfróðra manna og stjórnspekinga er það í hendi okkar, Alþingis, að dæma um hvort við teljum að þetta rúmist innan stjórnarskrárinnar eður ei. Ég tel að við eigum að túlka þau álit sem við höfum fengið starfseminni sem reglugerðin tekur til í hag. Formaður utanríkismálanefndar ræddi áðan hvaða afleiðingar það hefði fyrir flugrekstur hér á landi ef reglugerðin yrði ekki tekin upp í EES-samninginn. Flugstarfsemin skilaði samkvæmt tölum Hagstofunnar 156 milljörðum að framleiðsluvirði inn í þjóðarbúið árið 2009, en eins og einn lærimeistari minn sagði einu sinni þýða tölur ekki neitt nema í samanburði og hér kemur samanburðurinn: Framleiðsluvirði fiskvinnslunnar var á sama tíma 159 milljarðar og fiskveiða 106 milljarðar. Það er alveg ljóst að hér er um gífurlega mikla hagsmuni fyrir mjög áríðandi starfsemi hér á landi að ræða, þannig að það er einsýnt í mínum huga — enda skrifa ég undir nefndarálit það sem gerð var grein fyrir hér að framan — að ég er ekki hrædd við að samþykkja þetta vegna stjórnarskrárinnar.