139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

skeldýrarækt.

201. mál
[18:01]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta sjútv.- og landbn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 1. minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar um stjórnarfrumvarp til laga um skeldýrarækt.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund nokkurn fjölda gesta ásamt því sem rúmlega 20 umsagnir bárust um málið. Því til viðbótar óskaði nefndin álits umhverfisnefndar Alþingis auk þess sem henni bárust önnur erindi og gögn frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu og hagsmunaaðilum.

Vinna nefndarinnar við frumvarpið hefur verið viðamikil enda gerðu umsagnaraðilar og álitsgjafar á köflum miklar athugasemdir við frumvarpið. Að 1. minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar stend ég sem hér stend ásamt hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, Helga Hjörvar og Birni Vali Gíslasyni. Leggjum við til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem lagðar eru til í þingskjali 1598. Vísast til þessa þingskjals til nánari skýringar á breytingartillögunum.

Atli Gíslason og Róbert Marshall voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Fyrsti minni hluti tók nokkur sjónarmið og athugasemdir til sérstakrar skoðunar við meðferð málsins í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. 1. minni hluti ræddi markmið frumvarpsins í ljósi þess að nokkrir umsagnaraðilar töldu ekki tekið nægjanlega tillit til umhverfislegra þátta við markmiðssetningu.

1. minni hluti hefur fullan skilning á því að frumvarpi um skeldýrarækt sé ætlað að móta þann ramma sem nauðsynlegur er svo að skeldýrarækt fái dafnað á samkeppnishæfan máta. Þó telur 1. minni hluti að vart sé hægt að líta á skeldýrarækt sem starfsemi í rekstrarlegu tómarúmi þegar kemur að setningu reglna. Álit 1. minni hluta er að rétt sé að miða við að aðalmarkmið laga um skeldýrarækt skuli áfram verða þau sem frumvarpið útfærir en rétt sé að bæta við aukamarkmiðum. Í því ljósi leggur 1. minni hluti einnig til að gerðar verði nokkrar breytingar á einstökum ákvæðum frumvarpsins hvað varðar umsagnaraðila við undirbúning ákvarðana.

Gildissviðsafmörkun 2. gr. frumvarpsins virtist valda nokkurri óvissu meðal umsagnaraðila. Að mati 1. minni hluta er eðlilegt að bregðast við óvissu um það hvort skeldýraræktarlögum sé ætlað að taka til ræktar skeldýra í sjó eða ferskvatni. Er það gert með tillögu til breytingar sem stefnir að því að gildissvið frumvarpsins verði afmarkað við ræktun skeldýra í söltu vatni.

Þá virtust umsagnaraðilar eiga erfitt með að gera sér grein fyrir hvort frumvarpið næði til eldis. Eftir nokkra umræðu varð niðurstaða 1. minni hluta að hugtakið ræktun feli í sér umhirðu og vöktun án fóðrunar auk skipulegrar söfnunar og veiða á meðan eldi feli aðeins í sér umhirðu auk fóðrunar. Taldi 1. minni hluti skylt að frumvarpinu væri einungis ætlað að gilda um umhirðu og skipulega söfnun eða veiði skeldýra sem ekki felur í sér fóðrun. Nokkrar skilgreiningar 3. gr. frumvarpsins virtust vekja upp spurningar meðal umsagnaraðila. Af þeim sökum tók nefndin til sérstakrar skoðunar hvort hugtakaskilgreiningar á hugtökunum eignarland, mannvirki, netlög og ræktunarsvæði sköpuðu óvissu eða orsökuðu réttarspjöll. Í stuttu máli var niðurstaða 1. minni hluta sú að ekki væri þörf á því að breyta nema einni framangreindri skilgreiningu, þ.e. að hluti skilgreiningarinnar á ræktunarsvæði yrði felld brott.

Umsagnaraðilar gerðu nokkrar athugasemdir við eftirlitsþátt frumvarpsins. Þannig virtust sumir þeirra telja hættu á að eftirlitsvald Matvælastofnunar samkvæmt frumvarpinu skaraðist við eftirlit annarra stjórnvalda. Eftir nokkrar umræður í nefndinni var það niðurstaða 1. minni hluta að ekki ríkti mikill vafi um inntak eftirlitsheimildar Matvælastofnunar, eftirliti Matvælastofnunar væri aðeins ætlað að ná til starfsemi skeldýraræktarstöðva en ekki eftirlits með mengunarvörnum. Þó taldi 1. minni hluti rétt að gera breytingar á frumvarpinu í þeim tilgangi að hnykkja á eftirlitshlutverki Landhelgisgæslu Íslands.

Nefndin ræddi talsvert um þann skilning sumra umsagnaraðila að ráðherra væri með frumvarpinu fengið vald sem að einhverju leyti kynni að skarast á við skipulagsvald sveitarfélaga. Eftir viðamiklar umræður um þennan þátt málsins var það mat nefndarinnar að orðið skipulag í 5. gr. frumvarpsins ylli misskilningi. Af þeim sökum gerir nefndin þá tillögu að í stað þess orðs komi orðið fyrirkomulag. Telur 1. minni hluti að með því móti sé komið í veg fyrir misskilning ásamt því sem undirstrikað sé að vald ráðherra samkvæmt frumvarpsgreininni til að ákveða skipulag skeldýraræktar nái ekki til þess að taka ákvarðanir sem varðað geta landnot, byggð og mannvirki samkvæmt skipulagslögum.

Margir umsagnaraðilar töldu nauðsynlegt að fjölga umsagnaraðilum um ýmsa þætti er varða undirbúning ákvarðanatöku samkvæmt frumvarpinu. Að mati 1. minni hluta verður ekki hjá því komist að undirbúningur ákvarðanatöku samkvæmt frumvarpinu verði vandaður og að sem flestir þættir verði upplýstir áður en ákvarðanir eru teknar. Í ljósi þess að margar greinar frumvarpsins útfæra málsmeðferð sem miðar að því að vernda almannahag telur 1. minni hluti ekki hjá því komist að bregðast við athugasemdum með því að fjölga umsagnaraðilum. Engu að síður er 1. minni hluti meðvitaður um að ekki megi íþyngja skeldýrarækt um of. Því hefur 1. minni hluti reynt að takmarka fjölda umsagnaraðila eins og hann telur sér fært.

Nokkrir umsagnaraðilar gerðu athugasemdir við að umsagnarfrestir umsagnaraðila samkvæmt frumvarpinu væru of stuttir. Aðrir umsagnaraðilar lögðust gegn lengingu umsagnarfresta. 1. minni hluti lagði mat á þörf þess að takmarka tíma til veitingar umsagna. Þá leit 1. minni hluti til þess að ótakmarkaður tími til veitingar umsagna kann að valda spjöllum við undirbúning skelræktar. Af þeim sökum leggur 1. minni hluti til breytingu á þeim ákvæðum frumvarpsins sem kveða á um lengd umsagnarfresta þannig að hámarksskilafrestur umsagna verði fjórar vikur í stað tveggja. Með því móti telur 1. minni hluti sig hafa komið til móts við öll sjónarmið.

Umhverfisstofnun bendir á að umfangsmeiri tilraunaverkefni á sviði skelræktar verði að hafa starfsleyfi samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir þrátt fyrir tilraunaleyfi samkvæmt 7. gr. í frumvarpinu. 1. minni hluti tekur undir skoðun Umhverfisstofnunar og telur frumvarpinu ekki ætlað að sniðganga starfsleyfisþörf samkvæmt mengunarvarnalöggjöf. Í nafni skýrleika leggur 1. minni hluti þó til smávægilegar breytingar á 7. gr. frumvarpsins í ljósi þess að framkvæmd Umhverfisstofnunar virðist hafa verið misvísandi hingað til.

Nefndin ræddi hvort lengja bæri gildistíma leyfa samkvæmt frumvarpinu. Skeldýrarækt er ung og upprennandi starfsgrein. Því leggur 1. minni hluti til að gerðar verði breytingar á 7. og 9. gr. frumvarpsins þannig að gildistími tilraunaleyfa verði þrjú ár, framlengjanlegt að hámarki til sex ára en gildistími ræktunarleyfa verði tíu ár. Telur 1. minni hluti slíkt nauðsynlegt í því skyni að gefa ræktendum aukið svigrúm til tilrauna og til að takast á við vaxandi rekstur.

Nokkrir umsagnaraðilar bentu á að hugtakið heilnæmiskönnun samkvæmt 8. gr. frumvarpsins væri ekki skilgreint nægilega í frumvarpinu. Nefndin ræddi hugtakið og kallaði eftir útskýringum sérfræðinga á því. Niðurstaða 1. minni hluta er að leggja til að gerðar verði breytingar á 17. gr. frumvarpsins þannig að ráðherra verði heimilað setja ákvæði um framkvæmd og umfang heilnæmiskönnunar í reglugerð. 1. minni hluti fellst á athugasemd Matís ohf. um að nauðsynlegt sé að áætlun um vöktun á ræktunarsvæðum liggi fyrir áður en ræktunarleyfi verður veitt til skelræktenda.

Nokkrir umsagnaraðilar gerðu athugasemdir við gjaldtökuheimildir frumvarpsins. 1. minni hluti telur að ákvæði frumvarpsins uppfylli þau skilyrði sem almennt hafa verið talin gilda um töku þjónustugjalda af hálfu stjórnvalda. Þá er það álit 1. minni hluta að teknu tilliti til krafna réttarríkisins um fyrirsjáanleika að æskilegt sé að ráðherra nýti heimild sína til setningar gjaldskrár hið fyrsta eftir gildistöku laga um skeldýrarækt. Þá telur 1. minni hluti að þrátt fyrir að ráðherra verði samkvæmt frumvarpinu heimilað að taka tillit til framleiðslu fyrirtækja við ákvörðun um tilhögun reglugerða og gjaldskráa muni það honum aðeins heimilt að tryggt sé að önnur fyrirtæki verði ekki látin bera þann kostnað sem af slíku tilliti gæti hlotist.

Í umsögn tveggja umsagnaraðila kemur fram sú skoðun að framsalsbann 16. gr. frumvarpsins sé óheppilegt þar sem það takmarki fjármagn til skeldýraræktar og komi í veg fyrir að eðlilegur arður renni til frumherja við framsal leyfa til nýrra rekstraraðila. Framsalsbann það sem frumvarpsgreinin kveður á um var rætt sérstaklega á fundi nefndarinnar. Á það var m.a. bent að að baki frumvarpsgreinarinnar byggi sú hugsun að þar sem verulegir hagsmunir væru fólgnir í því að tryggt væri að þekking og reynsla yrði til staðar í greininni væri óeðlilegt að leyfin yrðu opin fyrir tíðu framsali. Þá væri eðlilegt í þeim tilfellum þegar skeldýraræktarfyrirtæki yrði gjaldþrota að komið væri í veg fyrir að skeldýraræktarleyfi yrðu verðmæti sem skiptastjórum bæri að selja hæstbjóðendum án tillits til þekkingar þeirra eða tilgangs. Þar sem eðli skelfisks væri að hann gæti verið hættuleg vara vegna eitrunar væri ríkisvaldinu sérstaklega mikilvægt að tryggja að leyfishafar uppfylltu þær kröfur sem gera verður til þeirra. Að auki kom fram að ætlun frumvarpshöfunda væri að skeldýraræktarleyfi yrðu gefin út á kennitölur leyfishafa og ekkert kæmi því í raun og veru fyrir sölu á hlutum í lögaðila, hann væri handhafi slíks leyfis. Taldi 1. minni hluti því að framsalsbann 16. gr. frumvarpsins eðlilegt og hagkvæmt fyrirkomulag.

Á fundum nefndarinnar kom það sjónarmið fram að mögulega fæli frumvarpið í heild í sér nokkuð íþyngjandi kvaðir á skeldýraræktendur. Nefndin ræddi þetta á fundum sínum og höfðu nefndarmenn allir skilning á þeim áhyggjum sem endurspeglast í framangreindum sjónarmiðum. Engu að síður er það álit 1. minni hluta að í ljósi þeirra hagsmuna sem mörgum reglum frumvarpsins er ætlað að vernda sé ekki fært að leggja til frekari breytingar til einföldunar á undirbúningi ákvarðanatöku samkvæmt frumvarpinu. Engu að síður beinir 1. minni hluti því til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins að sérstakt og virkt eftirlit verði haft með því að lög um skeldýrarækt nái þeim markmiðum að skapa skilyrði til ræktunar skeldýra og efla atvinnulíf í landinu. Það er álit 1. minni hluta að rétt sé að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra leggi fram nýtt frumvarp til laga um skeldýrarækt innan þriggja ára frá samþykkt skeldýraræktarlaga nái lögin ekki þeim framangreindu markmiðum.

Að öðru leyti vísa ég til nefndarálits 1. minni hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Nefndin fékk mál þetta til umfjöllunar áður en sú sem hér stendur varð formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Má því segja að ég hafi komið að málinu hálfunnu og vil ég þakka öðrum hv. nefndarmönnum og þó sérstaklega hv. þm. Atla Gíslasyni fyrir þá vinnu sem hann lagði í málið í formennskutíð sinni. Rétt er að halda því til haga að almennt hafa hv. nefndarmenn verið sérstaklega áhugasamir um málefni skeldýraræktar og þeim verið annt um að skeldýrarækt fái þá athygli og aðstoð sem hún þarfnast svo að hún megi vaxa og dafna.

Ábendingar hafa komið frá Félagi skeldýraræktenda eftir að málið fór út úr nefndinni til 2. umr. Tel ég rétt að taka þær til skoðunar á milli 2. og 3. umr. og vísa því málinu aftur til nefndar milli 2. og 3. umr.