139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2011--2014.

486. mál
[19:43]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég ætlaði reyndar ekki að hafa langt mál um þetta. Ég þakka framsögumanni og formanni utanríkismálanefndar fyrir yfirferð hans yfir nefndarálitið sem ég er á með fyrirvara. Það er rétt sem fram kom í máli formannsins að málið fékk ágæta umfjöllun í nefndinni og var þar skipst á skoðunum. Nefndarálitið ber með sér að á endanum varð að gera nokkrar málamiðlanir til þess að ná fram sameiginlegri niðurstöðu.

Mig langar til að nota þetta tækifæri til að ítreka stuttlega þær áhyggjur mínar sem ég rakti í fyrri umræðu um málið og snúa að því að við Íslendingar þurfum að gæta okkar á því að dreifa kröftum okkar ekki um of í alþjóðlegri samvinnu. Við höfum úr takmörkuðum mannafla og takmörkuðum fjármunum að spila og ef við setjum okkur of metnaðarfull markmið um að reyna að hafa áhrif og skipta máli of víða er hætt við að við gerum lítið yfir höfuð, að við gerum eitthvert smáræði úti um allt sem skiptir þá mjög litlu máli á hverjum stað.

Í fyrri umræðu um tillöguna fannst mér að fram kæmi ágætur skilningur á þessu sjónarmiði hjá hæstv. utanríkisráðherra. Ég held að með þessu skjali hafi verið tekið saman á mjög skipulegan og greinargóðan hátt hvernig menn hyggjast ná fram þeim markmiðum sem hér eru sett fram, og það er sannarlega verið að gera breytingar, svo sem með föstum framlögum til frjálsra félagasamtaka, það er mikil breyting. Við skulum vonast til þess að þau mál verði þá í fastari skorðum og skili meiri árangri.

Ég vil líka leggja á það áherslu, það var sjónarmið mitt í nefndinni og kemur svo sem ágætlega fram í nefndarálitinu, að það skiptir máli fyrir okkur að láta til okkar taka í þeim málaflokkum þar sem við höfum eitthvað fram að færa, eins og t d. á sviði sjávarútvegs og fiskveiða, orkumála og byggðaþróunar. Mér finnst skipta mjög miklu að við höldum áfram að leggja þróunarríkjum lið og aðstoðum við að byggja upp þekkingu á þessum sviðum. Þar tel ég að við höfum sérstaklega margt fram að færa. Fiskveiðistjórnarkerfi okkar er til fyrirmyndar fyrir aðrar þjóðir og við höfum gert mikið gagn víða við að deila reynslu okkar og þekkingu.

Loks vil ég nefna að ég hef gert fyrirvara við nefndarálitið fyrst og fremst vegna þess að ég hef efasemdir um að við eigum að setja okkur of metnaðarfull markmið við að auka framlög til þróunarmála umfram það sem segir í tillögunni. Við höfum áður skrúfað upp áætlanir um að auka við framlögin upp í 0,7% og það hefur ekki gengið eftir. Við þurftum að draga úr því þegar hér skall á fjármálakreppa árið 2008. Ég tel skynsamlegt að gera það sem fram kemur í tillögunni, að koma þá fram með nýja 10 ára áætlun um það hvernig við vinnum okkur í átt að þessu markmiði eða uppfyllum það. En ég tel að það orki tvímælis að herða á því og reyna að flýta því eins og vilji var fyrir í nefndinni.

Ég tel skynsamlegra að byggja bara á þessu 10 ára markmiði og skapist skilyrði fyrir því í efnahag okkar að hraða því ferli tel ég að það sé ágætlega breið samstaða um það í þinginu að grípa það tækifæri ef það kemur. Annars er hætta á því að við brennum okkur aftur á því að hafa spennt bogann of hátt. Auðvitað er ekki hægt að halda því fram að áætlun um að gera þetta á 10 árum sé eitthvað sérstaklega brött en mér finnst hún raunhæf og það er kannski það sem málið snýst um, að vera með raunhæfa áætlun.

Að öðru leyti þakka ég fyrir samstarfið í nefndinni um þessi mál. Þar var vel á þeim haldið af formanni nefndarinnar. Ég lýsi þeirri skoðun minni að við eigum að leggja okkur fram í þinginu um að ná saman um mál af þessum toga. Það skiptir máli að í utanríkismálum í víðu samhengi sé sem allra mest samstaða á Íslandi og hvar við eigum að láta gott af okkur leiða annars staðar, t.d. í þróunarsamvinnu eins og við ræðum hér. Það skiptir miklu máli og það hefur tekist ágætlega til í þessu tilviki.