139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

555. mál
[20:04]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir að hafa veitt mér þetta tækifæri að ræða örstutt fundarstjórn forseta í mestu vinsemd. Nú er klukkan yfir átta. Ég var einfaldlega ekki hér á fyrstu mínútum þingfundarins í morgun þannig að ég veit ekki hvort veitt hafi verið heimild til að fara fram yfir átta. Samkvæmt þingsköpum þarf sérstaklega að fara fram á það. Við skulum líka tala um málin eins og þau eru, við vitum að menn eru að ræða saman þessa stundina. Við vonumst auðvitað til að menn nái saman um lendingu þannig að allir geti farið sæmilega sáttir út í sumarið. Ef ekki þá förum við bara í sumarþing.

Ég vil bara fá að vita frá hæstv. forseta hvort það sé ekki svo að menn séu að bíða eftir niðurstöðu frá samningaviðræðum milli flokka eða hvort einfaldlega hafi verið veitt heimild til að halda áfram fram á nótt. Það væri gott að fá þær útskýringar. En ég undirstrika að (Forseti hringir.) að öllu jöfnu ættum við að vera búin að slíta þingfundi.