139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

555. mál
[20:51]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Baldri Þórhallssyni fyrir ræðuna þó að ég sé í mörgum atriðum ósammála henni. Þó er eitt og eitt sem við getum fundið flöt á.

Skildi ég hv. þingmann rétt — er hann ósammála því að samstarf kirkju og skóla hafi verið farsælt og gott? Það er ekki lengur um trúboð að ræða. Það hefur verið komið í veg fyrir það fyrir löngu. Þetta er miklu frekar samstarf og fræðsla og ýmislegt annað sem kirkjan hefur komið inn í skólana með í samstarfi við nemendur, í samstarfi við foreldra, sem óska eftir því, og í samstarfi við skólastjórnendur.

Ég vil spyrja hv. þingmann að því hvort það sé þetta sem hann telji að hái þessu öllu svona mikið?

Ég vil síðan spyrja hann, í ljósi þeirra orða sem hann lét falla hér áðan, að gera eigi öllum trúarbrögðum jafnhátt undir höfði. Ég er sammála því að við eigum að virða önnur trúarbrögð, við sem erum kristin, stuðla að sem mestri víðsýni og mestri fræðslu og mestri þekkingu. Þekking eyðir fordómum. Þekking útrýmir ofstæki o.s.frv.

Ég vil engu að síður spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér í því að í grundvallaratriðum byggist menning okkar á kristni, á því sem tengist kristninni, eins og kærleikanum. Er hann nokkuð feiminn við að viðurkenna að við Íslendingar erum kristin þjóð?