139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar.

555. mál
[21:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hingað upp til þess að þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni sérstaklega fyrir afburða snjalla ræðu, innihaldsríka og hún snertir algjörlega kjarna málsins hvað þetta varðar. Ég er sammála þingmanninum í einu og öllu. Ég vil undirstrika það að við þurfum að stuðla að umburðarlyndi með aukinni þekkingu, aukinni fræðslu og öflugri trúarbragðafræðslu sem er stunduð í skólunum. Hún er iðkuð af kennurum, ekki af prestum eða öðrum. Það er trúarbragðafræðsla sem kennarar sjá um, aðrir koma ekki nálægt því.

Það er hárrétt sem hv. þingmaður sagði varðandi þennan pólitíska rétttrúnað, sem er reyndar í ýmsum öðrum málum en akkúrat þessum þessar stundirnar, að hin ríka tenging kristninnar — við sjáum það ekki bara í Íslendingasögunum, við sjáum það líka í nútímabókmenntum. Við lesum Kiljan, lesum Kristnihaldið. Við lesum sálma eins og þjóðsönginn okkar þar sem kristnin kemur við sögu. Fyrir ungmennin okkar til að skilja menningu okkar verða menn einfaldlega að hafa djúpstæða þekkingu á kristninni af því hún er samofin inn í alla okkar menningu hvort sem er á sviði bókmennta, á sviði lífsviðhorfa o.s.frv.

Ég vil því spyrja hv. þingmann hvort hann sjái fram á það ef við verðum of undanlátssöm í fræðslu á trúarbrögðum, þar með talið kristni og ekki síst kristni, verði farið af stað og hoggið í fleiri þætti eins og t.d. þjóðsöng okkar Íslendinga sem byggir á kristninni. Er hætta á slíku? Er ekki mikilvægt að við höldum áfram að ræða kristnina á þeim forsendum og jafnvel enn víðtækari forsendum en við höfum verið að ræða fram til þessa í samfélaginu til þess að öðlast skilning á því sem við höfum verið að byggja upp í gegnum aldirnar? Er ekki mikilvægt að börnin okkar skilji kristnina til þess að þau skilji á hverju menning okkar byggir og menningararfleifð?