139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

almenn hegningarlög.

785. mál
[22:16]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (mansal).

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á almennum hegningarlögum um mansal. Annars vegar er lagt til að refsing fyrir mansal verði hækkuð úr 8 ára fangelsi í 12 ára fangelsi og hins vegar að mansalsbrot tæmi ekki sök gagnvart öðrum mjög alvarlegum frelsissviptingarbrotum, líkt og nú er, enda varða slík brot þyngri refsingu en ef brotið er gegn mansalsákvæði hegningarlaganna.

Með þessari breytingu verður önnur afleidd breyting sem lenging refsirammans hefur í för með sér sem er þannig að hægt verður að úrskurða sakborning í gæsluvarðhald, enda leiki sterkur grunur á að hann hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi. Það er þannig að í því máli sem upp hefur komið á Íslandi og tengist svona mansali reyndi í sjálfu sér á þá þætti sem þetta mál fjallar um, þ.e. getu réttarkerfisins til að úrskurða menn í gæsluvarðhald og einangrun meðan á rannsókn máls stendur. Hér er verið að bregðast við því auk þess sem ég tel fyrir mitt leyti eðlilegt að þyngja refsirammann í þeim mjög svo alvarlegu brotum sem hér er fjallað um.

Við gerum grein fyrir afstöðu nefndarinnar til málsins í nefndarálitinu en ég vil einnig geta þess að við fjölluðum í störfum nefndarinnar um vitnavernd sem er mjög mikilvæg í þessu samhengi, en það kom fram í störfum nefndarinnar og umfjölluninni um málið að innanríkisráðuneytið hefur ásamt lögregluyfirvöldum verið í samvinnu við yfirvöld á Norðurlöndum m.a. um mótun löggjafar um vitnavernd. Nefndin telur mjög mikilvægt að slík samvinna fari fram til að bæta hana, sérstaklega þegar litið er til þess að mansalsmál tengjast gjarnan skipulagðri alþjóðlegri brotastarfsemi.

Allsherjarnefnd leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Undir nefndarálitið rita auk mín hv. þingmenn Birgir Ármannsson, Vigdís Hauksdóttir, Sigurður Kári Kristjánsson, Mörður Árnason og Þór Saari.