139. löggjafarþing — 147. fundur,  9. júní 2011.

verslun með áfengi og tóbak.

703. mál
[23:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hnýt m.a. um vöruvalsreglur. Hver á að hafa eftirlit með því og hvaða reglur kemur ÁTVR til með að setja í vöruvali? Ég skil vel að menn, innflytjendur til að mynda, velti því fyrir sér hvernig það muni þróast, hverjir eru innundir hjá viðkomandi stjórnum. Ég geld varhuga við þeim breytingum sem eru settar fram og vil líka draga fram þau sjónarmið sem hafa verið sett fram af umsagnaraðilum, hvort sem það er Viðskiptaráð Íslands eða aðrir, þar sem menn benda á að endurskoða þurfi skattaleg markmið ríkisstjórnarinnar í tengslum við sölu áfengis í verslunum ÁTVR. Menn verða að horfast í augu við að bruggstarfsemi hefur aukist hér á landi. Er það sú þróun sem menn vilja sjá? Ég held að það sé ekki í samhengi og samræmi við þá samfélagslegu ábyrgð sem er m.a. talað um í frumvarpinu.

Ég held líka að það sé hvergi verið að taka á því í frumvarpinu að menn reyni markvisst að draga úr neyslu sterkari drykkja og reyni að beina neyslunni, ef hún á annað borð á að vera til staðar, til léttari veiga. Mér finnst vanta ákveðna heildaryfirsýn yfir þetta og einfaldlega ákveðið þor að fara gegn rétttrúnaði sem ríkir á þessu sviði sem svo allt of mörgum í samfélaginu. Það eru ýmis málefni sem má bara ekki snerta af því þá fær maður yfir sig þá holskeflu að maður sé, í þessu tilviki, að stuðla að því að hér verði aukin neysla áfengis. Það er ekki þannig. Það eru aðrar leiðir sem eru réttari og skynsamlegri að mínu mati til þess að stuðla að betri vínmenningu í landinu, sem ég trúi ekki öðru en hv. þingmaður sé samþykkur og samsinni mér í því máli, að það er eitthvað sem er eftirsóknarvert að við bætum vínmenninguna hérna og reynum að draga úr þeim hvötum að menn drekki sterkt vín og fari frekar í neyslu hófsamari drykkja.

Þetta eru sjónarmið mín varðandi málið. (Forseti hringir.) Mér finnst menn vera að hlaupa af stað í einhverjar breytingar án þess endilega að vera búnir að sjá (Forseti hringir.) að markmiðin náist í sjálfu sér.